Er biðin eftir ofurömmu á enda? Meyvant Þórólfsson skrifar 19. janúar 2026 14:32 Menntakerfi hafa þá sérstöðu að erfitt getur reynst að átta sig á orsakasamhengi. Breyturnar eru margar, jafnt innri sem ytri breytur. Samkvæmt samantekt Pasi Sahlberg skýrast í mesta lagi 40% af breytileika í frammistöðu nemenda af innri þáttum, svo sem námsskipulagi, skólamenningu, aðstöðu og faglegri forystu. Annað skýrist af þáttum, sem skólinn hefur takmarkað á valdi sínu. Dæmi um óheppilega ytri þætti hérlendis eru óreiðukennd starfsþróun, takmörkuð virðing og endurgjöf í garð kennara, ruglingsleg samskipti heimila og skóla, fámenni og fjárskortur sveitarfélaga, veikburða kennaramenntun og námsmat í skötulíki. Eftir að rekstur grunnskólanna fluttist frá ríki til sveitarfélaga undir lok síðustu aldar hefur þróast hér kaótískt kerfi án miðlægrar stýringar, sem hefur m.a. birst okkur sem urmull sprotaverkefna. Andvaraleysi menntamálayfirvalda hefur gert það að verkum að slík sprotamenning hefur náð að hjara í langan tíma og orðið súrrealískari eftir því sem fram líða stundir. Dæmi: Stafrænar spírur, Mixið, Skóli í skýjunum, Kveikjum neistann, Snillismiðja, Sprettur, Snjallræði, Læsi fyrir lífið, Memm, Mixtúra, NýMið, Skapandi smiðjur, Spjaldtölvuverkefnið, Vendikennsla og þannig mætti áfram telja. Allt áhugaverð sprotaverkefni mótuð af metnaði og góðum hug, en hljóta á endanum svipuð örlög og „döggin demantstæra sem í dögun er horfin“. Biðin eftir „Superman“ Heimildarmyndin Waiting for Superman vakti töluverða athygli á sínum tíma fyrir óvenjulega gagnrýni á bandarískt menntakerfi. Höfundarnir bentu meðal annars á lakan námsárangur, hátt brottfallshlutfall og meinta vanhæfni kennara í ríkisreknum skólum. Þeir lofuðu hins vegar svokallaða „charter“ skóla fyrir árangursríkar leiðir, m.a. skóla kennda við KIPP-menntunarlíkanið (Knowledge is power program; þekking er máttur), sem þekkist víða um Bandaríkin og í fleiri löndum. Kveikjum neistann, sem hlotið hefur töluverða athygli upp á síðkastið, gæti e.t.v. talist vísir að slíku menntunarlíkani. Skilaboð myndarinnar höfðu víðtæk áhrif og hlutu jákvæð viðbrögð fjölmargra þekktra aðila, m.a. Bill Gates og Roger Ebert, eins merkasta kvikmyndagagnrýnanda Bandaríkjanna. Þegar fram liðu stundir fór hins vegar að kræla á veikleikum í þeim rökfærslum, sem heimildarmyndin byggði á. Diane Ravitch, áhrifamikill sérfræðingur í menntamálum vestan hafs og höfundur bókarinnar Slaying Goliath, benti til dæmis á hvernig ýmsar matsniðurstöður þar virtust mistúlkaðar, m.a. niðurstöður NAEP-prófa um læsi unglinga. Waiting for Superman hefur þrátt fyrir allt hlotið lof fyrir það að beina athyglinni að ýmsum álitamálum tengdum bandarísku menntakerfi og tilraunum til að bæta það, meðal annars tveimur átaksverkefnum fyrrum forseta, No Child Left Behind og Race to the Top. Amma mætt upp á dekk Nýlega steig amma nokkur fram hér norður í hafi og líkti menntakerfi Íslands við vélarvana skip er skilið hefði verið eftir úti á rúmsjó: „Börnunum okkar líður illa og hér er amma komin upp á dekk … Við ætlum svo sannarlega að ræsa vélarnar og koma skipinu okkar í land“. Fyrirætlanir ömmunnar minntu á orðatiltækið fræga um bakarana tvo og smiðinn, þar sem lúni bakarinn varð blóraböggull fyrir smiðinn. Amman hafði nefnilega ekki dvalið lengi á dekki hins vélarvana skips þegar hún komst að þeirri niðurstöðu að læsislíkanið Byrjendalæsi skyldi verða blóraböggullinn; það hefði leitt til þess að hér væru „næstum því 50% drengja að útskrifast með lélegan lesskilning og nánast ólæsir eftir tíu ára grunnskólagöngu“ eins og hún komst að orði. Nýtekin við embætti mennta- og barnamálaráðherra sagðist amman ætla að kenna íslenskum börnum að lesa samkvæmt finnsku leiðinni, sem hún nefndi svo, með þróunarverkefnið Kveikjum neistann að leiðarljósi. Að auki nefndi hún fyrirhugaðar breytingar á nokkrum þáttum skólamála eins og námsmati, einkunnagjöf og túlkun á „skóla án aðgreiningar“. Meint „hyggindi“ ráðamanna eiga sér oft furðulegar birtingarmyndir, allt frá gefandi gjörhygli samfélaginu til hagsbóta til viðsjárverðrar vanhyggju. Yfirlýsingar ömmunnar, Ingu Sæland nýskipaðs ráðherra mennta- og barnamála, hafa sannarlega vakið ríkulega athygli líkt og heimildarmyndin Waiting for Superman. En hætt er við að þær krefjist nánari skoðunar vegna varhugaverðrar rökleysu fremur en rökfestu er kunni að leiða til hagsbóta. Yfirlýsingarnar hafa vissulega beinst að umræðunni um vandamál íslensks skólakerfis, en hins vegar hafa veikleikarnir í málflutningi hennar vakið ugg eins og bent hefur verið á (Sjá t.d. grein Rúnars Sigþórssonar í Vísi 15. janúar). Að auki er óhjákvæmilegt að líta á það sem þverbrest í hegðun Ingu og samráðherra hennar að láta óátalið hvernig hirðfífl RÚV vógu að mannorði forvera hennar í embætti, þ.e. í áramótaskaupi, meintum skemmtiþætti, sem var reyndar mettaður af bagalegri innrætingu. Finnskt menntakerfi Amman sagðist ætla að kenna eftir finnsku leiðinni. Pasi Sahlberg skrifaði um finnska menntakerfið undir yfirskriftinni Finnish Lessons. Orðið „lesson“ merkir í raun lexía eða lærdómur, ekki leið, því síður „patentlausn“. Hann skrifaði greinar og bækur og hélt fyrirlestra víða, m.a. á Íslandi, í þeim tilgangi að reyna að svara spurningum um hvaða lærdóm mætti draga af Finnum í skólamálum. Þótt hann hafi valið einum kafla í skrifum sínum heitið Finnska leiðin er hæpið að tala um svo sérstæða langtímaþróun skólakerfis sem „leið“ og því síður að heimfæra hana á kennsluaðferðir í lestri eða aðra náms- og kennsluhætti. Allt frá sjöunda áratug síðustu aldar hefur frammistaða finnskra nemenda mælst með því hæsta í alþjóðlegum rannsóknum, fyrst í rannsóknum IEA á síðustu öld og síðan í OECD PISA frá 2000 og fram á þennan dag. Engar spurnir hafa borist af því að Finnland hafi „skrapað botninn“ í umræddum rannsóknum, eins og mennta- og barnamálaráðherra virðist halda. Samkvæmt skrifum Sahlberg á þessi merki árangur í alþjóðarannsóknum sér flóknar skýringar. Hann hefur því ítrekað varað við ranghugmyndum um að finnska skólakerfið sé það besta í heimi og auk þess bent á að umbætur eða framfarir í tilteknu skólakerfi verði aldrei fluttar yfir á annað skólakerfi: „School reforms are poor travelers“, skrifaði hann. Loks hefur hann áréttað að nýbreytni í skólamálum þar í landi sé á margan hátt ættuð frá öðrum menningarsvæðum. Kennslan og kennaramenntunin Einn mikilvægasti þátturinn í velgengni Finna í skólamálum er að mati Sahlberg kennslan og kennaramenntunin. Kennaranámið er skipulegt fimm ára rannsóknanám með kröfum um sjálfstæð, fagleg og fræðileg vinnubrögð líkt og gerist hjá læknum og lögfræðingum, enda er borin álíka virðing þar í landi fyrir kennurum eins og þessum stéttum. Rannsóknir sýna að veik samfélagsleg virðing hefur neikvæð áhrif á starfsánægju og stöðugleika í starfi. Samkvæmt skýrslu TALIS frá 2024 telja tæp 50% finnskra kennara að störf þeirra séu vel metin af samfélaginu, en aðeins 19% íslenskra kennara. Auk þess er svonefndur „hveitibrauðsdaga-vandi“ mun áþreifanlegri á Íslandi en víða annars staðar. Nokkur ánægja reynist með laun og starfsaðstæður meðal nýliðakennara en dalar hratt með árunum.Byrjunarlaun finnskra kennara eru nálægt meðallagi, en hækka ört með vaxandi reynslu í starfi og ná hámarki eftir 20 ára starf. Á Íslandi er launaþróun kennara hins vegar ein sú flatasta meðal OECD-landa. Í Finnlandi eru gerðar strangar hæfnikröfur til umsækjenda um kennaranám; aðeins þeir hæfustu fá inngöngu eða um 10% umsækjenda. Áhersla er lögð á siðferðilega skuldbindingu ásamt fagþekkingu og kunnáttu í námsgreinum, sérstaklega hjá þeim sem kjósa að verða sérfræðingar í kennslu námsgreina á eldri stigum grunnskólans (7.-9. bekk), ýmist í einni, tveimur eða þremur faggreinum, til dæmis stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Að mati Sahlberg skýra þessar ströngu kröfur að miklu leyti árangur ríkja eins og Finnlands, Japans, Suður-Kóreu og Singapúr í alþjóðlegum menntarannsóknum. En það eitt að hafa góðum kennurum á að skipa leiði hins vegar ekki sjálfkrafa til árangurs að hans dómi. Til að hæfni góðra kennara fái notið sín þurfa þeir viðunandi aðstæður og umhverfi til að starfa í, tækifæri til faglegrar þróunar, vönduð námsgögn og námsefni, viðurkenningu, virðingu og valdeflingu sem felur í sér þátttöku í ákvarðanatöku, traust og endurgjöf, ábyrga og faglega skólastjórn og síðast en ekki síst samvirkni á vinnustað fremur en samkeppni og valdabaráttu. Er biðin eftir ofurömmu á enda? Nei, svo er ekki. Skipið er enn vélarvana úti á rúmsjó og ekki horfur á að ömmunni takist að ræsa vélarnar og sigla því í land. Hún virðist þegar hafa fallið í þá gildru að „hengja bakara fyrir smið“. Byrjendalæsi er metnaðarfullt þróunarverkefni, sem miðar að því að efla læsisnám tveggja yngstu árganga skyldunáms. Fjallað er um það í vönduðu riti upp á 460 blaðsíður með skýringum á fræðilegum forsendum og vísan í rannsóknir og ýmsa þætti við framkvæmd. Undirritaður vill gæta hlutleysis, en getur með engu móti fundið fylgni milli Byrjendalæsis og meintra ófara íslenskra unglinga í PISA-rannsóknum OECD. Það er vitanlega áhyggjuefni hve árangur Íslands fer ört hrakandi, en gefa þarf hinu flókna orakasamhengi mun betri gaum áður en leitað er að sökudólgum. Amman hyggst hafa Kveikjum neistann að leiðarljósi og stofna á landsvísu vísindasetur undir þeim merkjum. Undirritaður þekkir ekki nægilega til þessa verkefnis, en vill benda á þrennt í því sambandi: Ofansæknar breytingar (top-down reform) á skólakerfi, þ.e. ofan frá, gegnum allt kerfið og loks inn á gólf skólanna, skila sjaldnast þeim árangri sem yfirvöld vonast eftir. Í Spegli RÚV 14. janúar kom fram að mati á áhrifum verkefnisins Kveikjum neistann og árangri þess væri ábótavant. Það stæðist ekki skoðun án óháðrar ritrýni, sem ekki hefði átt sér stað. Lýsingar á vef verkefnisins vekja spurningar hjá undirrituðum sem sérfræðingi í stærðfræðimenntun: „Að nemendur kunni samlagningu, frádrátt, margföldun og deilingu við 12 ára aldur. Grunnþættir stærðfræðinnar festir í sessi áður en kemur að öðrum þáttum …. Þeir öðlist síðan kunnáttu og færni í öðrum þáttum stærðfræðinnar í 8.-10. bekk“. Á sem sagt að „drilla“ reikniaðgerðum eins og fægiskúffudeilingu í höfuð barnanna án áherslu á skilning í sjö ár og bíða með allt annað þar til á unglingastigi? Talnaskilning, rúmfræði, mælingar, sætiskerfi, myndrit, meðferð og flokkun gagna, hlutföll, brot, breytur og svo framvegis? Hugsanlega liggur hér að baki gagnreynd hugmyndafræði sem undirritaður kemur ekki auga á? Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skóla- og menntamál Mest lesið Kæra Hanna Katrín, lengi getur vont versnað Vala Árnadóttir Skoðun Í órétti en samt í rétti? Bætur fyrir bílslys þegar þú ert sökudólgurinn Bryndís Gyða Michelsen Skoðun Hvar eru mannvinirnir? Lárus Bl. Sigurðsson Skoðun Veikindaleyfi – hvert er hlutverk stjórnenda? Andri Hrafn Sigurðsson Skoðun Magnaða Magnea í borgarstjórn! Guðrún Margrét Guðmundsdóttir,Inga Magnea Skúladóttir Skoðun Áfengi eykur líkur á sjö tegundum krabbameina Sigurdís Haraldsdóttir Skoðun Er biðin eftir ofurömmu á enda? Meyvant Þórólfsson Skoðun Breytingar, breytinganna vegna? Dóra Magnúsdóttir Skoðun Hlutdræg fréttamennska um Karlaathvarf og styrki Einar Steingrímsson Skoðun Seltjarnarnes og fjárhagurinn – viðvarandi hallarekstur Sigurþóra Bergsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Að finnast maður ekki skipta máli Víðir Mýrmann skrifar Skoðun Ein helsta forvörn og grunnstoð samfélagsins er fjölbreytt íþróttastarf Magnús Ingi Ingvarsson skrifar Skoðun Fagmennska í framlínunni - Af hverju kennarar skipta máli Bryngeir Valdimarsson skrifar Skoðun Er biðin eftir ofurömmu á enda? Meyvant Þórólfsson skrifar Skoðun Seltjarnarnes og fjárhagurinn – viðvarandi hallarekstur Sigurþóra Bergsdóttir skrifar Skoðun Breytingar, breytinganna vegna? Dóra Magnúsdóttir skrifar Skoðun Innviðir eru forsenda lífsgæða ekki tekjustofn ríkisins Arnar Freyr Ólafsson skrifar Skoðun Veikindaleyfi – hvert er hlutverk stjórnenda? Andri Hrafn Sigurðsson skrifar Skoðun Aðgerðaráætlun í málefnum fjölmiðla Herdís Fjeldsted skrifar Skoðun Magnaða Magnea í borgarstjórn! Guðrún Margrét Guðmundsdóttir,Inga Magnea Skúladóttir skrifar Skoðun Menntun og svikin réttindi Hilmar Freyr Gunnarsson skrifar Skoðun Hlutdræg fréttamennska um Karlaathvarf og styrki Einar Steingrímsson skrifar Skoðun Framtíð barna okkar krefst meiri festu en fyrirsagna Kristín Thoroddsen skrifar Skoðun Bær atvinnulífsins Orri Björnsson skrifar Skoðun Vöruvæðing íþróttanna og RIG ráðstefnan um snemmbundna afreksvæðingu Daði Rafnsson skrifar Skoðun Áfengi eykur líkur á sjö tegundum krabbameina Sigurdís Haraldsdóttir skrifar Skoðun Í órétti en samt í rétti? Bætur fyrir bílslys þegar þú ert sökudólgurinn Bryndís Gyða Michelsen skrifar Skoðun Með fólkið í forgrunni – menningarbrú og samfélagslegur ávinningur Ellen Calmon skrifar Skoðun Hvort skiptir meira máli, lestur eða líf? Steindór Þórarinsson,Jón K. Jacobsen skrifar Skoðun Krafa um árangur í menntakerfinu Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar Skoðun Börn útvistuð til glæpa á netinu Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Hvar eru mannvinirnir? Lárus Bl. Sigurðsson skrifar Skoðun Ekki setja Steinunni í 2. sæti… Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifar Skoðun Við verðum að vilja ganga í ESB Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun EM í handbolta og lestrarkennsla Sigurður F. Sigurðarson skrifar Skoðun Að þurfa eða þurfa ekki raforku Robert Magnus skrifar Skoðun Snorri og Donni Andri Þorvarðarson skrifar Skoðun Ekki ný hugsun heldur ábyrgðarleysi Anna Björg Jónsdóttir,Berglind Magnúsdóttir skrifar Skoðun Er tæknin til að skipta yfir í hreina orku til staðar? Gunnar Einarsson skrifar Skoðun Hvað er ég að vilja upp á dekk Signý Sigurðardóttir skrifar Sjá meira
Menntakerfi hafa þá sérstöðu að erfitt getur reynst að átta sig á orsakasamhengi. Breyturnar eru margar, jafnt innri sem ytri breytur. Samkvæmt samantekt Pasi Sahlberg skýrast í mesta lagi 40% af breytileika í frammistöðu nemenda af innri þáttum, svo sem námsskipulagi, skólamenningu, aðstöðu og faglegri forystu. Annað skýrist af þáttum, sem skólinn hefur takmarkað á valdi sínu. Dæmi um óheppilega ytri þætti hérlendis eru óreiðukennd starfsþróun, takmörkuð virðing og endurgjöf í garð kennara, ruglingsleg samskipti heimila og skóla, fámenni og fjárskortur sveitarfélaga, veikburða kennaramenntun og námsmat í skötulíki. Eftir að rekstur grunnskólanna fluttist frá ríki til sveitarfélaga undir lok síðustu aldar hefur þróast hér kaótískt kerfi án miðlægrar stýringar, sem hefur m.a. birst okkur sem urmull sprotaverkefna. Andvaraleysi menntamálayfirvalda hefur gert það að verkum að slík sprotamenning hefur náð að hjara í langan tíma og orðið súrrealískari eftir því sem fram líða stundir. Dæmi: Stafrænar spírur, Mixið, Skóli í skýjunum, Kveikjum neistann, Snillismiðja, Sprettur, Snjallræði, Læsi fyrir lífið, Memm, Mixtúra, NýMið, Skapandi smiðjur, Spjaldtölvuverkefnið, Vendikennsla og þannig mætti áfram telja. Allt áhugaverð sprotaverkefni mótuð af metnaði og góðum hug, en hljóta á endanum svipuð örlög og „döggin demantstæra sem í dögun er horfin“. Biðin eftir „Superman“ Heimildarmyndin Waiting for Superman vakti töluverða athygli á sínum tíma fyrir óvenjulega gagnrýni á bandarískt menntakerfi. Höfundarnir bentu meðal annars á lakan námsárangur, hátt brottfallshlutfall og meinta vanhæfni kennara í ríkisreknum skólum. Þeir lofuðu hins vegar svokallaða „charter“ skóla fyrir árangursríkar leiðir, m.a. skóla kennda við KIPP-menntunarlíkanið (Knowledge is power program; þekking er máttur), sem þekkist víða um Bandaríkin og í fleiri löndum. Kveikjum neistann, sem hlotið hefur töluverða athygli upp á síðkastið, gæti e.t.v. talist vísir að slíku menntunarlíkani. Skilaboð myndarinnar höfðu víðtæk áhrif og hlutu jákvæð viðbrögð fjölmargra þekktra aðila, m.a. Bill Gates og Roger Ebert, eins merkasta kvikmyndagagnrýnanda Bandaríkjanna. Þegar fram liðu stundir fór hins vegar að kræla á veikleikum í þeim rökfærslum, sem heimildarmyndin byggði á. Diane Ravitch, áhrifamikill sérfræðingur í menntamálum vestan hafs og höfundur bókarinnar Slaying Goliath, benti til dæmis á hvernig ýmsar matsniðurstöður þar virtust mistúlkaðar, m.a. niðurstöður NAEP-prófa um læsi unglinga. Waiting for Superman hefur þrátt fyrir allt hlotið lof fyrir það að beina athyglinni að ýmsum álitamálum tengdum bandarísku menntakerfi og tilraunum til að bæta það, meðal annars tveimur átaksverkefnum fyrrum forseta, No Child Left Behind og Race to the Top. Amma mætt upp á dekk Nýlega steig amma nokkur fram hér norður í hafi og líkti menntakerfi Íslands við vélarvana skip er skilið hefði verið eftir úti á rúmsjó: „Börnunum okkar líður illa og hér er amma komin upp á dekk … Við ætlum svo sannarlega að ræsa vélarnar og koma skipinu okkar í land“. Fyrirætlanir ömmunnar minntu á orðatiltækið fræga um bakarana tvo og smiðinn, þar sem lúni bakarinn varð blóraböggull fyrir smiðinn. Amman hafði nefnilega ekki dvalið lengi á dekki hins vélarvana skips þegar hún komst að þeirri niðurstöðu að læsislíkanið Byrjendalæsi skyldi verða blóraböggullinn; það hefði leitt til þess að hér væru „næstum því 50% drengja að útskrifast með lélegan lesskilning og nánast ólæsir eftir tíu ára grunnskólagöngu“ eins og hún komst að orði. Nýtekin við embætti mennta- og barnamálaráðherra sagðist amman ætla að kenna íslenskum börnum að lesa samkvæmt finnsku leiðinni, sem hún nefndi svo, með þróunarverkefnið Kveikjum neistann að leiðarljósi. Að auki nefndi hún fyrirhugaðar breytingar á nokkrum þáttum skólamála eins og námsmati, einkunnagjöf og túlkun á „skóla án aðgreiningar“. Meint „hyggindi“ ráðamanna eiga sér oft furðulegar birtingarmyndir, allt frá gefandi gjörhygli samfélaginu til hagsbóta til viðsjárverðrar vanhyggju. Yfirlýsingar ömmunnar, Ingu Sæland nýskipaðs ráðherra mennta- og barnamála, hafa sannarlega vakið ríkulega athygli líkt og heimildarmyndin Waiting for Superman. En hætt er við að þær krefjist nánari skoðunar vegna varhugaverðrar rökleysu fremur en rökfestu er kunni að leiða til hagsbóta. Yfirlýsingarnar hafa vissulega beinst að umræðunni um vandamál íslensks skólakerfis, en hins vegar hafa veikleikarnir í málflutningi hennar vakið ugg eins og bent hefur verið á (Sjá t.d. grein Rúnars Sigþórssonar í Vísi 15. janúar). Að auki er óhjákvæmilegt að líta á það sem þverbrest í hegðun Ingu og samráðherra hennar að láta óátalið hvernig hirðfífl RÚV vógu að mannorði forvera hennar í embætti, þ.e. í áramótaskaupi, meintum skemmtiþætti, sem var reyndar mettaður af bagalegri innrætingu. Finnskt menntakerfi Amman sagðist ætla að kenna eftir finnsku leiðinni. Pasi Sahlberg skrifaði um finnska menntakerfið undir yfirskriftinni Finnish Lessons. Orðið „lesson“ merkir í raun lexía eða lærdómur, ekki leið, því síður „patentlausn“. Hann skrifaði greinar og bækur og hélt fyrirlestra víða, m.a. á Íslandi, í þeim tilgangi að reyna að svara spurningum um hvaða lærdóm mætti draga af Finnum í skólamálum. Þótt hann hafi valið einum kafla í skrifum sínum heitið Finnska leiðin er hæpið að tala um svo sérstæða langtímaþróun skólakerfis sem „leið“ og því síður að heimfæra hana á kennsluaðferðir í lestri eða aðra náms- og kennsluhætti. Allt frá sjöunda áratug síðustu aldar hefur frammistaða finnskra nemenda mælst með því hæsta í alþjóðlegum rannsóknum, fyrst í rannsóknum IEA á síðustu öld og síðan í OECD PISA frá 2000 og fram á þennan dag. Engar spurnir hafa borist af því að Finnland hafi „skrapað botninn“ í umræddum rannsóknum, eins og mennta- og barnamálaráðherra virðist halda. Samkvæmt skrifum Sahlberg á þessi merki árangur í alþjóðarannsóknum sér flóknar skýringar. Hann hefur því ítrekað varað við ranghugmyndum um að finnska skólakerfið sé það besta í heimi og auk þess bent á að umbætur eða framfarir í tilteknu skólakerfi verði aldrei fluttar yfir á annað skólakerfi: „School reforms are poor travelers“, skrifaði hann. Loks hefur hann áréttað að nýbreytni í skólamálum þar í landi sé á margan hátt ættuð frá öðrum menningarsvæðum. Kennslan og kennaramenntunin Einn mikilvægasti þátturinn í velgengni Finna í skólamálum er að mati Sahlberg kennslan og kennaramenntunin. Kennaranámið er skipulegt fimm ára rannsóknanám með kröfum um sjálfstæð, fagleg og fræðileg vinnubrögð líkt og gerist hjá læknum og lögfræðingum, enda er borin álíka virðing þar í landi fyrir kennurum eins og þessum stéttum. Rannsóknir sýna að veik samfélagsleg virðing hefur neikvæð áhrif á starfsánægju og stöðugleika í starfi. Samkvæmt skýrslu TALIS frá 2024 telja tæp 50% finnskra kennara að störf þeirra séu vel metin af samfélaginu, en aðeins 19% íslenskra kennara. Auk þess er svonefndur „hveitibrauðsdaga-vandi“ mun áþreifanlegri á Íslandi en víða annars staðar. Nokkur ánægja reynist með laun og starfsaðstæður meðal nýliðakennara en dalar hratt með árunum.Byrjunarlaun finnskra kennara eru nálægt meðallagi, en hækka ört með vaxandi reynslu í starfi og ná hámarki eftir 20 ára starf. Á Íslandi er launaþróun kennara hins vegar ein sú flatasta meðal OECD-landa. Í Finnlandi eru gerðar strangar hæfnikröfur til umsækjenda um kennaranám; aðeins þeir hæfustu fá inngöngu eða um 10% umsækjenda. Áhersla er lögð á siðferðilega skuldbindingu ásamt fagþekkingu og kunnáttu í námsgreinum, sérstaklega hjá þeim sem kjósa að verða sérfræðingar í kennslu námsgreina á eldri stigum grunnskólans (7.-9. bekk), ýmist í einni, tveimur eða þremur faggreinum, til dæmis stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Að mati Sahlberg skýra þessar ströngu kröfur að miklu leyti árangur ríkja eins og Finnlands, Japans, Suður-Kóreu og Singapúr í alþjóðlegum menntarannsóknum. En það eitt að hafa góðum kennurum á að skipa leiði hins vegar ekki sjálfkrafa til árangurs að hans dómi. Til að hæfni góðra kennara fái notið sín þurfa þeir viðunandi aðstæður og umhverfi til að starfa í, tækifæri til faglegrar þróunar, vönduð námsgögn og námsefni, viðurkenningu, virðingu og valdeflingu sem felur í sér þátttöku í ákvarðanatöku, traust og endurgjöf, ábyrga og faglega skólastjórn og síðast en ekki síst samvirkni á vinnustað fremur en samkeppni og valdabaráttu. Er biðin eftir ofurömmu á enda? Nei, svo er ekki. Skipið er enn vélarvana úti á rúmsjó og ekki horfur á að ömmunni takist að ræsa vélarnar og sigla því í land. Hún virðist þegar hafa fallið í þá gildru að „hengja bakara fyrir smið“. Byrjendalæsi er metnaðarfullt þróunarverkefni, sem miðar að því að efla læsisnám tveggja yngstu árganga skyldunáms. Fjallað er um það í vönduðu riti upp á 460 blaðsíður með skýringum á fræðilegum forsendum og vísan í rannsóknir og ýmsa þætti við framkvæmd. Undirritaður vill gæta hlutleysis, en getur með engu móti fundið fylgni milli Byrjendalæsis og meintra ófara íslenskra unglinga í PISA-rannsóknum OECD. Það er vitanlega áhyggjuefni hve árangur Íslands fer ört hrakandi, en gefa þarf hinu flókna orakasamhengi mun betri gaum áður en leitað er að sökudólgum. Amman hyggst hafa Kveikjum neistann að leiðarljósi og stofna á landsvísu vísindasetur undir þeim merkjum. Undirritaður þekkir ekki nægilega til þessa verkefnis, en vill benda á þrennt í því sambandi: Ofansæknar breytingar (top-down reform) á skólakerfi, þ.e. ofan frá, gegnum allt kerfið og loks inn á gólf skólanna, skila sjaldnast þeim árangri sem yfirvöld vonast eftir. Í Spegli RÚV 14. janúar kom fram að mati á áhrifum verkefnisins Kveikjum neistann og árangri þess væri ábótavant. Það stæðist ekki skoðun án óháðrar ritrýni, sem ekki hefði átt sér stað. Lýsingar á vef verkefnisins vekja spurningar hjá undirrituðum sem sérfræðingi í stærðfræðimenntun: „Að nemendur kunni samlagningu, frádrátt, margföldun og deilingu við 12 ára aldur. Grunnþættir stærðfræðinnar festir í sessi áður en kemur að öðrum þáttum …. Þeir öðlist síðan kunnáttu og færni í öðrum þáttum stærðfræðinnar í 8.-10. bekk“. Á sem sagt að „drilla“ reikniaðgerðum eins og fægiskúffudeilingu í höfuð barnanna án áherslu á skilning í sjö ár og bíða með allt annað þar til á unglingastigi? Talnaskilning, rúmfræði, mælingar, sætiskerfi, myndrit, meðferð og flokkun gagna, hlutföll, brot, breytur og svo framvegis? Hugsanlega liggur hér að baki gagnreynd hugmyndafræði sem undirritaður kemur ekki auga á? Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum.
Í órétti en samt í rétti? Bætur fyrir bílslys þegar þú ert sökudólgurinn Bryndís Gyða Michelsen Skoðun
Skoðun Ein helsta forvörn og grunnstoð samfélagsins er fjölbreytt íþróttastarf Magnús Ingi Ingvarsson skrifar
Skoðun Vöruvæðing íþróttanna og RIG ráðstefnan um snemmbundna afreksvæðingu Daði Rafnsson skrifar
Skoðun Í órétti en samt í rétti? Bætur fyrir bílslys þegar þú ert sökudólgurinn Bryndís Gyða Michelsen skrifar
Í órétti en samt í rétti? Bætur fyrir bílslys þegar þú ert sökudólgurinn Bryndís Gyða Michelsen Skoðun