Handbolti

Dagur henti tveimur leik­mönnum sínum upp í stúku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er engin miskunn hjá Degi Sigurðssyni. Þú verður að standa þig ef þú ætlar að vera með króatíska landsliðinu á EM.
Það er engin miskunn hjá Degi Sigurðssyni. Þú verður að standa þig ef þú ætlar að vera með króatíska landsliðinu á EM. EPA/Bo Amstrup

Króatar eru á leiðinni í milliriðla með Íslendingum eftir sigur á Hollendingum í kvöld en lærisveinar Dags hafa unnið tvo fyrstu leiki sína á Evrópumótinu í handbolta.

Blaðamaður króatíska fréttamiðilsins Vecernji sagði að landsliðsþjálfarinn Dagur hefði gefið sínum mönnum skýr skilaboð fyrir leikinn í kvöld eftir dapra frammistöðu á móti Georgíu í fyrsta leik.

„Við verðum áfram í Svíþjóð! Það er ljóst hvað Dagur vildi og sjáið hverjir koma næst,“ sló króatíski blaðamaðurinn Damir Mrvec upp í kvöld.

Blaðamaðurinn benti líka á það að með þessum úrslitum gætu leikmenn króatíska liðsins skemmt sér á hvíldardegi með því að fara á Evrópudeildarleik í fótboltanum þar sem Dinamo heimsækir Midtjylland í næstu viku.

Sá fyrsti í ellefu ár

„Króatíska handboltalandsliðið er komið áfram í milliriðil á Evrópumeistaramótinu á Skandinavíuskaga. Eftir nauðsynlegan sigur unnum við Holland 35-29. Við þurftum að hafa mikið fyrir þessum sigri – Hollendingar pressuðu á okkur stærstan hluta leiksins en svo náðum við yfirhöndinni á síðustu tuttugu mínútunum. Það dugði til sigurs, þess fyrsta gegn Hollandi í ellefu ár,“ skrifaði Mrvec.

Blaðamaðurinn benti á þá staðreynd að Dagur henti tveimur leikmönnum sínum upp í stúku eftir slaka frammistöðu í fyrsta leik.

Myndi ekki umbera slaka frammistöðu

„Dagur Sigurðsson gerði það ljóst að hann myndi ekki umbera slaka frammistöðu. Strax eftir leikinn gegn Georgíu sendi hann tvo leikmenn upp í stúku. Veron Nacinovic átti að vera mikilvægur hlekkur í vörn okkar en gegn Georgíu sýndi hann ekki nálægt því þá hörku sem hann sýnir með Kiel,“ skrifaði Mrvec og hélt áfram. 

„Sama gerðist hjá honum á heimsmeistaramótinu í Króatíu þegar hann var settur út í kuldann eftir tapið gegn Egyptalandi. Luka Lovre Klarica gerði mörg mistök, tapaði mörgum boltum og skaut fram hjá, svo hann fékk þau „verðlaun“ að enda uppi í stúku líka,“ skrifaði Mrvec.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×