Erlent

Fjórar hákarlaárásir á að­eins 48 klukku­stundum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nautháfurinn er ein af fáum hákarlategundum sem ráðast á fólk.
Nautháfurinn er ein af fáum hákarlategundum sem ráðast á fólk. Getty/UIG/Luis Javier Sandoval

Fjórir einstaklingar hafa orðið fyrir árás hákarla í Nýju Suður-Wales í Ástralíu á aðeins 48 klukkustundum. Talið er að mikil rigning undanfarna daga kunni að eiga þátt að máli, þar sem hún veldur því að aukin fæða skolast niður með ám og út í sjó.

Síðasta árásin átti sér stað í morgun en þá fékk 39 ára brimbrettakappi sár á bringuna eftir að hákarl beit í brettið hans. Annar brimbrettakappi hlaut sár eftir árás hákarls í gær og þá hlaut 27 ára maður alvarlega áverka eftir árás aðeins nokkrum klukkustundum áður.

Fyrsta árásin átti sér stað á sunnudag, þegar tólf ára drengur var bitinn við vinsæla strönd.

Yfirvöld telja að allar árásirnar hafi verið af völdum nautháfa, sem finnast bæði í saltvatni og ferskvatni. Nautháfar sjást helst í Nýju Suður-Wales í janúar og febrúar, sem eru sumarmánuðir í Ástralíu. Og nú, í kjölfar rigninga, þegar vatn verður gruggugra og erfiðara að sjá hákarlana, hafa yfirvöld varað fólk við því að fara út í sjóinn.

Hákarlaárásir eru fremur fátíðar þótt þær séu áberandi í fréttum. Þess vegna þykir þessi fjöldi árása á skömmum tíma afar sérstakur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×