Innlent

„Það er ekki laust við að það fari um mann“

Árni Sæberg skrifar
Snorri Másson er varaformaður Miðflokksins.
Snorri Másson er varaformaður Miðflokksins. Vísir/Anton Brink

Miðflokkurinn mælist nú með rúmlega 22 prósenta fylgi, aðeins fimm prósentum minna en Samfylking og mun meira en næstu flokkar á eftir. Varaformaðurinn segir að hann finni fyrir ákalli um breytt stjórnmál og að mikilvægt sé að Miðflokksmenn haldi áfram að tala skýrt um þau.

Líkt og fjallað var um í hádegisfréttum Bylgjunnar nemur fylgisaukning Miðflokksins frá kosningum í nóvember 2024 nemur tíu prósentum. Fylgi Samfylkingar hefur aukist um 6,2 prósent frá kosningum en í skoðanakönnunum eftir kosningar hefur hann mest mælst með 31,9 prósent.

Oddur Ævar Gunnarsson fréttamaður ræddi tíðindin við Snorra Másson, varaformann Miðflokksins, í Alþingishúsinu í morgun.

„Svona er alltaf mjög ánægjulegt að sjá og það er ekki laust við að það fari um mann í einhverjum skilningi. Maður finnur fyrir þrýstingnum og pressunni að einhverju leyti og væntingunum sem við finnum fyrir frá samfélaginu, um að við raunverulega getum náð að komast til áhrifa og breyta stjórnmálunum. Ég finn sannarlega fyrir ákalli um breytt stjórnmál,“ segir hann.

Þurfi ekki að passa sig

Miðflokksmenn hafi ferðast vítt og breitt um landið undanfarnar vikur og haldið fjölmenna fundi. Alls staðar þar sem þeir hafi komið hafi hann fundið fyrir raunverulegum breytingum, sérstaklega gagnvart Miðflokknum.

„Ég hef verið að segja við fólk að við bjóðum alla velkomna um borð í Miðflokknum. Það eru mjög margir að koma til liðs við okkur. Þetta er stækkandi hreyfing en engu að síður þá þurfum við auðvitað að vanda til verka.“

Þegar vel gangi byrji fólk að tala um það að Miðflokksmenn þurfi að fara varlega og passa sig. „Ég segi, við þurfum ekki að passa okkur. Við verðum bara að halda áfram að tala skýrt um stjórnmálin.“

Hugsar ekki um hvaðan fylgið kemur

Undanfarið hefur mikið verið talað um það að Miðflokkurinn sé að sækja gríðarlega fylgisaukningu sína beint í kjósendahóp Sjálfstæðisflokksins.

„Augljóslega kemur fylgið úr öllum áttum, ekki síst Sjálfstæðisflokki en væntanlega líka úr öðrum flokkum á öllu rófinu. Ég reyni að hugsa sem minnst um það, sérstaklega í ljósi þess að við lifum tíma þar sem að mörgu leyti er verið að fleygja öllu bara upp í loft, hvort sem það er í heimsmálunum eða hér á Íslandi og einhvers staðar þarf þetta að lenda. Ég fagna því bara ef þetta lendir hjá okkur.“

Auknu fylgi fylgi mikil ábyrgð og Miðflokksmenn reyni að taka við auknum áhuga en halda samt kúrs.

Skynsemi í útlendingamálum skili auknu fylgi

Heldur þú að það sé útlendingastefnan ykkar sem skilar ykkur þessu fylgi?

„Ég held að stór hluti kjósenda okkar líti til okkar vegna áherslu á skynsemi í útlendingamálum og í raun og veru allt aðra nálgun en verið hefur í íslenskum stjórnmálum. Varðstaða okkar um fullveldi íslensku þjóðarinnar, skynsemi í flestum öðrum málum, það er að segja að horfa á með, því sem einhver myndi mögulega kalla, kaldlyndi á hagsmuni íslensku þjóðarinnar og reyna að vinna út frá því frekar en til dæmis einhverjum uppblásnum, loftkenndum hugsjónum, sem hafa kannski verið lenskan hingað til. Ég held að við lifum tíma þar sem að menn þurfi svolítið að segja hlutina eins og þeir eru og við reynum að gera það. Og ég vona  að það haldi áfram að skila okkur einhverju.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×