Viðskipti innlent

Kaup­samningum fækkaði tíma­bundið vegna vaxtamálsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Skýrsla HMS fjallar einnig um lánamarkaðinn og þar kemur fram að umsvif á skammtímaleigumarkaði hafi verið álíka mikil árið 2025 og þau voru árið 2024.
Skýrsla HMS fjallar einnig um lánamarkaðinn og þar kemur fram að umsvif á skammtímaleigumarkaði hafi verið álíka mikil árið 2025 og þau voru árið 2024.

Kaupsamningum í nóvember 2025 fækkaði um 17 prósent milli ára og voru aðeins 779 talsins, líklega vegna tímabundins skerts aðgengis að íbúðalánum í kjölfar dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða um miðjan október. Frá þessu er greint í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Að minnsta kosti 1.025 kaupsamningum á fasteignamarkaði var þinglýst í desember en samkvæmt HMS má leiða líkur að því að hluti þeirra varði viðskipti sem frestuðust tímabundið á meðan óvissa var uppi vegna dómsins. Alls voru 740 íbúðir teknar af söluskrá í desember.

Vísitala íbúðaverðs lækkaði í desember, annan mánuðinn í röð, en á síðsutu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 2,11 prósent á sama tíma og verðbólga mældist 4,5 prósent. Íbúðaverð lækkaði meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðaverð hefur ekki haldið í við almenna verðlagsþróun undanfarna mánuði, heldur lækkað að raunvirði fimm mánuði í röð sé miðað við tólf mánaða breytingu.

„Viðsnúningur varð í þróun raunverðs á árinu sem var að líða, þar sem íbúðir fóru frá því að hafa hækkað um 5,5% að raunvirði á milli janúarmánaða 2024 og 2025 í að hafa lækkað um 2,27% að raunvirði á milli desembermánaða 2024 og 2025,“ segir í skýrslunni.

Samkvæmt könnun HMS meðal fasteignasala telja flestir þeirra virkni á fasteignamarkaði litla miðað við árstíma. Fasteignamarkaðurinn sé því áfram kaupendamarkaður. Þó megi greina aukningu í aðsókn á fyrstu viku sölutíma.

Alls voru 5.105 íbúðir til sölu á landinu öllu í upphafi árs en önnur hver íbúð á höfuðborgarsvæðinu er í nýbyggingu. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs seldist rúmlega ein af hverjum sex nýjum íbúðum til sölu en helmingur af öðrum íbúðum.

Í skýrslunni er fjallað um nýtt mælaborð um fyrstu kaupendur en á síðasta ári var hlutfall fyrstu kaupa 34 prósent. Það hefur verið 32 prósent að meðaltali frá því í ársbyrjun 2007 en sveiflast á milli mánaða og ára.

Hér má finna skýrsluna í heild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×