Erlent

Ungur drengur látinn eftir hákarlaárás

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Nico var að leika sér með vinum sínum þegar hákarl réðist á hann.
Nico var að leika sér með vinum sínum þegar hákarl réðist á hann. EPA

Tólf ára drengur er látinn eftir að hafa verið bitinn af hákarli í sjónum við Sidney í Ástralíu. Fjórir urðu fyrir hákarlaárás á stuttum tíma í vikunni.

Drengurinn hét Nico Antic og var að leika sér að hoppa út í sjóinn með vinum sínum þann 18. janúar þegar hákarl, af tegundinni nautháfur, réðst á Antic. Vinir hans stukku í vatnið á eftir honum til að hjálpa.

Antic hlaut alvarlega áverka á fæti og var fluttur á sjúkrahús. Eftir að hafa gengist undir skurðaðgerð var hann settur í dá. Antic lést af sárum sínum í gær.

„Nico var glaður, vinalegur og íþróttamannslegur ungur strákur með einstaklega góðhjartað og gjafmilt eðli. Hann var alltaf fullur af lífi og þannig munum við minnast hans,“ segir í tilkynningu frá fjölskyldu hans samkvæmt BBC.

Sett var af stað fjáröflun fyrir fjölskylduna og hafa safnast tæpar þrjátíu milljónir íslenskra króna.

Fjórar árásir á tveimur dögum

Greint var frá því í vikunni að fjórir urðu fyrir hákarlaárás á 48 klukkustundum. Antic var sá fyrsti af fjórum sem varð fyrir hákarlaárás. 

39 ára brimbrettakappi hlaut sár á bringuna eftir að hákarl beit í brettið hans. Annar brimbrettakappi fékk einnig sár og nokkrum klukkustundum þar á eftir hlaut 27 ára maður alvarlega áverka.

Yfirvöld telja að allar árásirnar hafi verið af völdum nautháfa, sem finnast bæði í saltvatni og ferskvatni. Mikið hefur rignt á svæðinu svo vatnið varð gruggugra og erfiðara er að sjá hárkalana. Einnig skolast fæða niður með ám og út í sjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×