Innlent

Valið á milli gömlu og nýju Sam­fylkingarinnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Eiríkur Bergmann segir að það sé að komast upp á yfirborðið - í litlum molum hér og þar - hversu harður oddvitaslagurinn er í raun og veru.
Eiríkur Bergmann segir að það sé að komast upp á yfirborðið - í litlum molum hér og þar - hversu harður oddvitaslagurinn er í raun og veru. Samsett

„Þetta er mjög spennandi barátta og óvanaleg um margt. Hér er kominn áskorandi utan frá,“ segir Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor við Bifröst, um oddvitaslag Heiðu Bjargar Hilmisdóttur sitjandi borgarstjóra og Péturs Marteinssonar.

Mikil eftirvænting ríkir fyrir úrslitum í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Þau verða tilkynnt um sjöleytið í kvöld en hægt verður að greiða atkvæði til klukkan sex síðdegis. Nú þegar hafa mun fleiri greitt atkvæði í flokksvali Samfylkingar en gerðu í heild í flokksvalinu fyrir fjórum árum. Nýskráningar í flokkinn voru svo margar á dögunum að skráningarkerfið bognaði hreinlega undan álaginu. Skilaboð frá Heiðu Björgu til ónefndrar manneskju hafa komist í mikla dreifingu en í þeim sagði hún Pétur vera frægan karl með enga reynslu. Í Pallborðinu á Vísi í gær sagðist hún ekki muna eftir skilaboðunum en í gærkvöldi gekkst hún við því að hafa sent skilaboðin og baðst afsökunar.

Getur verið að mönnum sé að hlaupa kapp í kinn og að baráttan sé mögulega harðari um oddvitasætið en almenningur hefur gert sér grein fyrir?

„Jú, jú, þetta er auðvitað mjög harður oddvitaslagur. Það svona blasir við og auðvitað ýmislegt sem á sér stað svona undir niðri og það kemst kannski ekki upp á yfirborðið nema í einhverjum molum sem við höfum verið að sjá. Og það er alveg augljóst að það er unnið af fullri hörku í þessari kosningabaráttu,“ segir Eiríkur.

Eiríkur var beðinn um að greina hver munurinn væri helst á oddvitaefnunum tveimur og hver helstu sérkenni þeirra pólitísku skilaboða væru nú þegar flokkmenn gera upp hug sinn í flokksvalinu.

„Heiða er hefðbundinn jafnaðarmaður úr þessari íslensku vinstri hreyfingu sem hefur starfað í Samfylkingunni yfir langa hríð og er svona tengd þessari klassísku Samfylkingu, ef svo má segja. En á undanförnum misserum hefur auðvitað komið ný forysta í Samfylkinguna sem hefur fært flokkinn lengra til hægri og svona nær miðjunni, alveg þannig að það eru jafnvel áhöld í hugum sumra hvort Samfylkingin sé raunverulegur vinstri flokkur eða ekki. Og Pétur virðist falla svona nær þessari nýju forystu og þeirri sýn sem hún hefur,“ útskýrir Eiríkur.

Nýja forystan hafi stigið nokkur skref frá vinstri stefnunni.

„Þannig að ég myndi segja að þetta væri, ef þú vilt einfalda þetta niður í einfalda merkimiða, þá er þetta svona aðeins munurinn á gömlu og nýju Samfylkingunni, ef við getum sagt sem svo,“ segir Eiríkur.

Allt getur gerst

Það er mál manna að það sé alls ekki fyrirsjáanlegt hver niðurstaðan verður og fólk virðist ekki hafa sterka tilfinningu fyrir því hvort það muni að endingu sigra. Hefur þú einhverja tilfinningu fyrir því?

„Í rauninni ekki. Það er bara ómögulegt að segja. En það eru þó ýmsir angar á þessu máli. Heiða hefur náttúrulega verið mjög lengi í Samfylkingunni og á þar stuðning meðal þeirra sem fyrir voru, að miklu leyti. En núna berast fregnir af gríðarlegri smölun í flokkinn og þá má gera ráð fyrir að það sé svona frekar fólk sem er að koma til liðs við flokkinn til þess að kjósa Pétur. Hvernig þetta síðan svona liggur, það er flóknara að segja á þessari stundu,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor við Bifröst.


Tengdar fréttir

Vandræðagangur með skilaboð á versta tíma fyrir Heiðu

Guðmundur Heiðar Helgason, almannatengill hjá vörumerkjastofunni Tvist, segir að frambjóðendur í kosningabaráttu þurfi að hugsa um einkaskilaboð til kjósenda sem opinber skilaboð nú á stafrænum tímum. Hann segir vandræðagang með skilaboð borgarstjóra um að mótframbjóðandinn sé „frægur karl með enga reynslu“ koma upp á versta tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×