Innlent

Inn­leiða bílnúmeralesara til að at­huga hvar bílar eru skráðir

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Sorpa rekur sex endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal á Dalvegi í Kópavogi.
Sorpa rekur sex endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal á Dalvegi í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Sorpa hyggst setja upp bílnúmeralesara á endurvinnslustöðvum sínum til að rukka fyrirtæki samkvæmt gjaldskrá. Fjórðungur þeirra sem nýta endurvinnslustöðvarnar eru fyrirtæki eða íbúar utan höfuðborgarsvæðisins.

„Breytingin snýr fyrst og fremst að því að tryggja réttláta gjaldtöku og að þau sem eiga að greiða fyrir losun úrgangs geri það í samræmi við gildandi reglur,“ segir í tilkynningu frá Sorpu.

Lögbundið hlutverk Sorpu sé einungis að sinna móttöku frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu, ekki frá fyrirtækjum eða heimilum utan höfuðborgarsvæðisins. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu greiði samhliða fasteignagjöldum fyrir megnið af rekstri endurvinnlustöðva Sorpu.

„Innleiðing bílnúmeralesara er liður í því að tryggja sanngjarna skiptingu kostnaðar, skýran gjaldtökuferil og að þjónusta Sorpu sé í samræmi við hlutverk og fjármögnun byggðasamlagsins.“

Þar segir að markmið þeirra til lengri tíma sé að lækka kostnað sveitarfélaganna við rekstur endurvinnslustöðva Sorpu og þar með lækka kostnað íbúanna. Tekið er fram að nytjahlutir sem eiga að fara í Góða hirðinn séu í flestum tilvikum undanskildir gjaldskyldu, saman hvaðan þeir koma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×