Innlent

Ó­vissa um fram­boð bæði Írisar og listans

Árni Sæberg skrifar
Íris Róbertsdóttir er bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar.
Íris Róbertsdóttir er bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar. Vísir/Ívar Fannar

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hún gefi kost á sér í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þá segir hún ekki hafa verið ákveðið hvort bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey tefli fram lista í kosningunum.

„Bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey hefur verið að funda með trúnaðarfólki og við erum í góðu samtali. Það verður fundað fljótlega aftur um framboðsmálin. Það hefur engin ákvörðun verið tekin og það liggur ekkert fyrir núna um það hvernig hlutunum verður háttað,“ segir Íris í samtali við Vísi.

Eyjafréttir birtu í morgun niðurstöður skoðanakönnunar Maskínu, sem sýnir fram á að Fyrir Heimaey mælist með 27 prósenta fylgi í Vestmanneyjum, Eyjalistinn 23 prósenta og Sjálfstæðisflokkurinn 50 prósenta. Fyrir Heimaey og Eyjalistinn mynda núverandi meirihluta bæjarstjórnar. Vert er að taka fram að úrtak könnunarinnar, 84 Eyjamenn, er svo lítið að niðurstöðum hennar verður trauðla gefið mikið vægi. Þá svöruðu sjö hinna 84 Eyjamanna spurningunni ekki.

Hugur í fólki

Íris bendir á að Fyrir Heimaey sé bæjarmálafélag en ekki stjórnmálaflokkur og því þurfi að ákveða sérstaklega fyrir hverjar kosningar hvort boðið verði fram.

„Það er alveg hugur í fólki en eins og ég segi, formlega er ekki búið að taka neina ákvörðun.“

Þá segir hún að sama gildi um sig persónulega, hún hafi ekki ákveðið hvort hún fari fram á ný. „Ég ákvað að gefa mér tíma. Það hefur verið búin til rosaleg tímapressa í þessu en við þurfum ekki allan þennan tíma, eða ég þarf hann allavega ekki. Þannig að ég ætla að gefa mér góðan tíma og taka ákvörðun hvort ég gefi kost á mér í vor. En það skýrist náttúrulega fljótlega.“ 

Hún segist auðmjúk og þakklát fyrir að hafa fengið að starfa við bæjarmálin í átta ár en það sé alltaf ákvörðun að gefa kost á sér.

Margt spennandi

Spurð að því hvort hún velti einnig fyrir sér á hvaða lista mögulegt framboð hennar yrði segir Íris ákvörðunina fyrst og fremst snúast um hvort hún gefi kost á sér.

„Svo liggur það í hlutarins eðli að það þyrfti að vera fyrir einhvern. Ákvörðunin er fyrst og fremst hvort ég gef kost á mér til að halda áfram í pólitík. Ég ætla að gefa mér tíma til að velta því fyrir mér, af því að það er margt spennandi og ýmislegt. En ég held að það sé alltaf hollt fyrir alla þá sem eru í pólitík að staldra við og velta því fyrir sér hvort fólk eigi að halda áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×