Fótbolti

Heimir í viðræðum við Færeyjarmeistarana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Guðjónsson gæti þjálfað erlendis.
Heimir Guðjónsson gæti þjálfað erlendis. Vísir/Ernir
Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari FH, gæti verið á leið til Færeyja en hann hefur átt í viðræðum við Færeyjarmeistara Víkings í Götu.

Þetta kemur fram á færeyska fréttamiðlinum In.fo en Sámal Erik Hentze, þjálfari Víkinga, lét af störfum eftir tímabilið sem kláraðist um síðustu helgi.

Víkingur tapaði 2-1 fyrir EB/Streym í lokaumferðinni en varð meistari í Færeyjum annað árið í röð á betri markatölu en KÍ úr Klakksvík sem hafnaði í öðru sæti.

Heimir stýrði liði FH til sigurs á Færeyjar-Víkingunum í forkeppni Meistaradeildarinnar í ár og segir í frétt færeysku síðunnar að það sé ekki óhugsandi að Íslendingurinn taki við sem þjálfari liðsins.

Heimir er atvinnulaus eftir að hann var rekinn frá FH sem hann gerði fimm sinnum að Íslandsmeistara á þeim tíu árum sem hann stýrði liðinu enn. Hann var í herbúðum FH frá aldamótum, fyrst sem leikmaður, síðar aðstoðarþjálfari og svo aðalþjálfari.

Ekkert starf er laust í Pepsi-deildinni þar sem þau lið sem létu sína þjálfara fara eru búin að fylla í skörðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×