Íslenski boltinn

KA leiðir kapphlaupið um Hallgrím Jónasson

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hallgrímur Jónasson í landsleik gegn Mexíkó í byrjun þessa árs.
Hallgrímur Jónasson í landsleik gegn Mexíkó í byrjun þessa árs. vísir/getty
Hallgrímur Jónasson, miðvörður danska úrvalsdeildarliðsins Lyngby, spilar að öllum líkindum með KA í Pepsi-deildinni á næsta ári, samkvæmt heimildum Vísis.

KA hefur verið í baráttunni um Hallgrím í nokkra mánuði en hálf deildin hefur verið á eftir þessum öfluga varnarmanni síðan það spurðist út að fjölskylda hans væri flutt til Akureyrar.

Valsmenn ætluðu sér að fá Hallgrím til að fylla í skarð Orra Sigurðar Ómarssonar ef hann hefði farið til Horsens, samkvæmt heimildum Vísis, en þar sem ekkert varð úr því þarf Hlíðarendafélagið ekki á öðrum miðverði að halda í bili.

KA lagði fram öflugt tilboð til að lokka Húsvíkinginn norður en hann yfirgaf Akureyri árið 2005 eftir þrjú tímabil með Þór. Hann gekk þá í raðir Keflavíkur áður en hann fór utan í atvinnumennsku árið 2008.

Hallgrímur spilaði með GAIS í Svíþjóð í þrjú ár en flutti sig svo um set til Danmerkur þar sem hann hefur verið síðan 2011 hjá SönderjyskE, OB og nú síðast Lyngby. Þar er hann lykilmaður og var að koma til baka eftir meiðsli sem héldu honum utan vallar í tvo mánuði.

Danska úrvalsdeildin er komin í sitt langa vetrarfrí en hún hefst aftur í febrúar. Samkvæmt heimildum Vísis fer Hallgrímur aftur út og spilar með Lyngby eftir áramót en KA-menn vonast til að geta samið við hann frá 1. apríl þannig að hann verði klár í baráttuna í Pepsi-deildinni þegar að hún hefst 27. apríl.

Hallgrímur á 16 landsleiki að baki en síðast spilaði hann „B“-liðs leik á móti Mexíkó í janúar á þessu ári. Hann hefur ekki átt fast sæti í íslenska hópnum í tvö ár en fari svo að hann næli sér óvænt í HM-sæti og semji við KA frá 1. apríl fá norðanmenn um tíu milljónir króna í sinn hlut. Meira um það má lesa hér.

KA hafnaði í sjöunda sæti í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð sem nýliðar en liðið spilaði í fyrsta sinn á meðal þeirra bestu síðan að það féll árið 2004. Liðið hefur verið mjög rólegt á leikmannamarkaðnum en til KA er kominn Sæþór Olgeirsson frá Völsungi en Almarr Ormarsson er farinn í Fjölni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×