Íslenski boltinn

Óli Jóh: FH er með þrjá landsliðsmenn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, segir að FH muni veita sínum mönnum harða samkeppni um Íslandsmeistaratitilinn í sumar.

„FH-liðið er frábært og eitt það best skipaða í deildinni,“ sagði Ólafur er Hörður Magnússon spurði hann álits á Hafnarfjarðarliðinu í upphitunarþætti Pepsi Max-markanna í gær.

„Auðvitað erum við betri en þeir. Ég get ekki sagt annað. En FH-liðið er vel mannað og betra en í fyrra. FH er með þrjá landsliðsmenn. Mér sýnist að FH-liðið sé betra en undanfarin ár,“ sagði Ólafur en nafni hans, Kristjánsson, þjálfari FH, var með honum í settinu.

Þótt þrír færeyskir landsliðsmenn séu í liði FH er Valur með tvo byrjunarliðsmenn úr íslenska landsliðinu innan sinna raða. Ólafur, þjálfari FH, hrósaði Val fyrir hvernig staðið væri að málum á Hlíðarenda.

„Valur er með frábært lið og ég vil hrósa Valsmönnum fyrir hvernig þeir hafa tæklað hlutina á undanförnum árum. Að rísa upp og ná þessum árangri sem þeir hafa náð. Þeir eru í forystusætinu og við hinir þurfum að elta þá,“ sagði Ólafur.

„Það er frábært að hafa svona félag sem setur markið hátt. Við þurfum að spýta í lófana til að standast þeim snúning. En það er hægt og ég held að margir reyni að bíta í hælana á þeim í sumar.“

Valur tekur á móti Víkingi R. í upphafsleik Pepsi Max-deildarinnar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. FH fær hins vegar nýliða HK í heimsókn klukkan 16:00 á morgun. Fyrsta umferðin verður svo gerð upp í Pepsi Max-mörkunum á Stöð 2 Sport klukkan 21:15 á sunnudaginn.

Valur og FH mætast svo í stórleik 32-liða úrslita Mjólkurbikarsins í næsta mánuði.

Innslagið úr Pepsi Max-mörkunum í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Val spáð Íslandsmeistaratitlinum

Valsmenn verða Íslandsmeistarar ef hin árlega spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liðanna í Pepsi Max-deild karla rætist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×