Fótbolti

Þrumur og eldingar þegar Svíþjóð vann Síle

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Svíar fara vel af stað á HM.
Svíar fara vel af stað á HM. vísir/getty
Svíþjóð vann Síle, 0-2, í Rennes í F-riðli á HM kvenna í dag.

Hlé var gert á leiknum í seinni hálfleik vegna þrumuveðurs. Þá var 71 mínúta liðin af leiknum og staðan markalaus.



Eftir 40 mínútna hlé hófst leikurinn að nýju. Á 82. mínútu braut Kosovare Asllani ísinn fyrir Svía. Hún þrumaði boltanum þá upp í þaknetið eftir barning í vítateignum. Þetta var 33. mark hennar fyrir sænska landsliðið.

Í uppbótartíma bætti varamaðurinn Madelen Janogy öðru marki við eftir flottan einleik og gulltryggði sigur Svía.

Svíþjóð var miklu sterkari í leiknum, átti 24 skot gegn fimm og var 69% með boltann.

Þetta var fyrsti leikur Síle á heimsmeistaramóti frá upphafi. Næsti leikur liðsins er gegn heimsmeisturum Bandaríkjanna í París á sunnudaginn. Svíþjóð mætir Tælandi í Nice á sama dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×