Innlent

Meirihluti andvígur ESB-aðild

Meirihluti þeirra sem afstöðu tóku í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins er á móti því að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu. Rúmlega einn af hverjum þremur hefur þó ekki gert upp hug sinn varðandi umsókn um aðild. Af þeim sem afstöðu tóku sögðust 55 prósent andvíg umsókn um aðild að Evrópusambandinu meðan 45 prósent kváðust fylgjandi umsókn. Tæplega þrír af hverjum fimm tóku afstöðu, rúmlega 35 prósent sögðust óákveðin og tæp sjö prósent neituðu að svara. "Þessi niðurstaða undirstrikar að meðal þjóðarinnar er greinilega mjög sterkt fylgi við umsókn um aðild að Evrópusambandinu þó svo að það hafi á stundum verið meira," segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar. "Þetta endurspeglar að fólk er æ betur að gera sér grein fyrir því að hagsmunum okkar yrði illa borgið innan ESB;" segir Einar Kristinn Guðfinnsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Nokkur munur reyndist á afstöðu kynjanna gagnvart umsókn um aðild. Þær konur sem tóku afstöðu í skoðanakönnun blaðsins skiptust nær alveg í tvo jafnstóra hópa, fylgjandi og andvígan umsókn um aðild. Andstaða við umsókn um aðild að sambandinu mældist umtalsvert meiri meðal karla en um sextíu af hundraði þeirra sem afstöðu tóku kváðust andvígir umsókn um aðild. Þá mældist andstaða við aðild mun meiri á landsbyggðinni en í þéttbýli. Sextíu prósent íbúa landsbyggðarinnar kváðust andvíg umsókn um aðild meðan aðeins rétt rúmur helmingur íbúa þéttbýlis lýstu sömu afstöðu. Hringt var í 800 manns og skiptist úrtakið jafnt milli kynja og hlutfallslega milli kjördæma. Spurt var: Ertu fylgjandi eða andvígur því að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×