Innlent

Úrslit í samræmi við kannanir

"Ég tel að kannanir hafi verið í miklu samræmi við úrslitin og í raun sagt þau fyrir," segir Þórólfur Þórlindsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Í könnun Fréttablaðsins þriðjudaginn 22. júní, fjórum dögum fyrir kosningar, mældist Ólafur Ragnar með 71,9 prósent fylgi en fékk 67,9. Ástþóri Magnússyni var spáð 1,2 prósent fylgi en fékk 1,5 prósent. Baldur Ágústsson mældist með 6,2 prósent í könnuninni en hlaut 9,9 prósent. Aðeins munaði einum tíunda hluta úr prósentustigi á könnun Fréttablaðsins hlutfall auðra seðla og úrslitum kosninganna. Í könnuninni ætluðu 20,6 prósent að skila auðu en 22,5 prósent gerðu það þegar upp var staðið. Könnun IMG Gallups frá 16. júní spáði Ólafi Ragnari svipuðu fylgi og Fréttablaðið eða 71,4 prósent atkvæða. Hún spáði Ástþóri 0,6 prósent fylgi og Baldri 7,9 prósentum. Athygli vekur að bæði könnun Fréttablaðsins og Gallups bentu til mun meiri kjörsóknar en raunin varð. Þórólfur segir rétt að staldra við það og spyrja hvort eitthvað hafi gerst síðustu dagana fyrir kosningar sem hafi dregið úr kjörsókn. "Það er ýmislegt sem kemur til greina. Í fyrsta lagi má vera að það hafi hreinlega verið ofmat á kjörsókn í skoðanakönnunum. Í öðru lagi má spyrja hvort áhrifin og stemningin í kringum fjölmiðlafrumvarpið, sem hefði hugsanlega ýtt undir kjörsókn, hafi fjarað út síðustu dagana fyrir kosningar. Í þriðja lagi kemur til greina að skoðanakannanirnar sjálfar hafi átt þátt í að draga úr kjörsókn, því þær sýndu yfirburða stöðu Ólafs Ragnars og það hefur ef til vill latt fólk til að mæta á kjörstað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×