Innlent

Þarf fleiri en kusu Ólaf Ragnar

Níutíu og fjögur þúsund kjósendur þarf til að fella fjölmiðlalögin úr gildi í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu, verði þess krafist að minnst 44% atkvæðisbærra manna greiði atkvæði gegn þeim. Það eru mun fleiri en kusu Ólaf Ragnar Grímsson um helgina. Starfshópur ríkisstjórnarinnar um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu telur að taka megi upp „hóflega og málefnalega lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni“, eins og það er orðað. Lagðar eru fram hugmyndir um að t.d. verði miðað við 50% kosningaþátttöku eða að 25-44% atkvæðisbærra manna þurfi til að fella lögin úr gildi. Um þessar mundir eru um 213.500 manns á kjörskrá. Ef miðað er við að minnst 44% atkvæðisbærra manna þurfi til að fella lögin, þýðir það að a.m.k. 94.000 kjósendur þurfi að kjósa gegn þeim. Gildir þá einu hversu margir koma á kjörstað. Hreinn meirihluti gildir þá einungis ef fleiri en 188.000 kjósendur nýta atkvæðisrétt sinn. 90.662 kusu Ólaf Ragnar um síðustu helgi eða nokkuð færri en þarf til að fella lögin úr gildi. Um 134.000 manns kusu í forsetakosningunum eða 63% atkvæðisbærra manna. Ef við gefum okkur að kosningaþátttaka verði sú sama í þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin þarf meira en 70% kjósenda að segja nei við lögunum til að fá vilja sínum framgengt. Verði kjörsóknin meiri, t.d. 75%, þurfa 59% þeirra sem koma á kjörstað að kjósa gegn lögunum til að þau falli úr gildi. Þetta hlutfall lækkar svo eftir því sem kjörsókn verður meiri, en ávallt þarf meira en 94.000 atkvæði til. Þá leggur nefndin til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram fyrsta eða annan laugardag í ágúst.  Það er hins vegar í höndum stjórnvalda að ákveða hvenær atkvæðagreiðslan fer fram, sem og, hvort farið verður eftir tillögum nefndarinnar um hóflega og málefnalega lágmarksþátttöku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×