Innlent

Spá því að stjórnin haldi

Forystumenn stjórnarandstöðunnar telja að Framsóknarflokknum standi betri vist til boða í ríkisstjórn en með Sjálfstæðisflokknum. Þeir reikna þó ekki með því að framsóknarmenn slíti stjórnarsamstarfinu. Í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur á Bylgjunni í dag taldi Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, að Framsóknarflokkurinn hefði hvað eftir annað gleypt við hverju vandræðamálinu á eftir öðru frá sjálfstæðismönnum og við slíkar aðstæður yrði tíð Halldórs Ásgrímssonar, sem forsætisráðherra með sjálfstæðismönnum, samfelld píslarganga. Hann benti á að Halldór ætti fleiri möguleika; til væri önnur vist í ríkisstjórn en með sjálfstæðisflokki. Össur telur framtíðina verða ríkisstjórninni mjög þungbæra því flokkarnir tveir eigi eftir að rífast um svo margt. Þeir eigi eftir að reyna að leiða þetta mál til lykta, takast á um skattamálin, heilbrigðismálin og menntamálin. Össur telur þó ekkert benda til að framsóknarmenn söðli um og biðli til stjórnarandstöðuflokkanna, og undir það tekur Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. Hann segir Framsóknarflokkinn vera búinn að borga svo mikið inn á 15. septmeber að þeir muni „ekki afskrifa það allt saman bara út af þessu máli. Hins vegar kann vel að vera að þeir nái að slá nýtt met í undirlægjuhætti gagnvart Sjálfstæðisflokknum,“ segir Steingrímur. Hann spáir því að stjórnarsamstarfið hangi saman á löngun stjórnarliða til að sitja í valdastólum.    Ekki náðist í Guðjón A. Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins, þar sem hann heldur nú upp á sextugsafmæli sitt á Vesturfjöðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×