Menning

Njóttu sólarinnar

Nú er sumarið komið og margir farnir í tilheyrandi sumarfrí. Sumir eiga það eftir, sumir eru búnir með það og sumir fá einfaldlega ekkert sumarfrí. Á heitum sumardögum er oft erfitt að einbeita sér að vinnunni. Freistandi er að horfa út um gluggann, láta hugann reika og gleyma mikilvægum verkefnum og skilafrestum. Þó er ekki öll von úti enn og ekkert mál að flytja sumarið inn á skrifstofuna. Ef þú kemst ekki út á daginn til að njóta sumarmánaðanna reyndu þá að koma með sumarið inn. Tíndu sumarblóm og settu þau á skrifborðið þitt í vinnunni. Ef þú vinnur við tölvu þá geturðu sett einhverja sumarlega mynd á skjáinn og spilað hressa og sumarlega tónlist. Opnaðu gluggana, farðu úr skónum og njóttu sumarsins - innandyra. Gerðu sem mest úr matartímanum. Taktu þér þann matartíma sem þú mátt og gerðu eitthvað sniðugt. Komdu með nesti, finndu fallegan grasblett og farðu í litla lautarferð. Einnig er hægt að finna kaffihús þar sem hægt er að sitja úti í sólinni. Góð pása yfir daginn tryggir meiri afköst. Farðu með vinnuna út ef þú getur. Athugaðu hvort þú getur flutt fundi út eða sest á bekk með fartölvuna og unnið í sólskininu. Athugaðu hvort þú getur unnið þér inn aukatíma. Kannski leyfir fyrirtækið þér að vinna aðeins lengur einn daginn og sleppa þannig fyrr einhvern annan dag. Þú gætir unnið aðeins lengur alla vikuna og farið fyrr á föstudögum og notið dagsins. Hreyfðu þig. Farðu á morgnana eða eftir vinnu í ræktina, sund eða út að ganga. Reyndu að fá vinnufélagana með og stofna ef til vill gönguklúbb. Þú getur líka hreyft þig í matartímanum og tekið góðan göngutúr nálægt vinnunni. Farðu í frí! Notaðu allt sumarfríið þitt og taktu þér ærlegt frí til að slappa af. Þú þarft ekkert endilega að fara til útlanda heldur frekar njóta rós og næðis hér heima fyrir. Ef þú tekur þér eitt gott frí yfir sumartímann þá tryggir það að þú kemur endurnærð/ur til vinnu og heldur betur á spöðunum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×