Innlent

Frumvarp úrskurðað þinglegt

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, úrskurðaði í morgun að nýja fjölmiðlafrumvarpið væri þinglegt. Stjórnarandstaðan lýsti sig algerlega ósammála niðurstöðunni við upphaf þingfundar, bæði að efni og formi til. Harðar umræður urðu um úrskurðinn með hlátrasköllum. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði frumvarpið ótækt, óþinglegt og að í því fælist stjórnskipulegur óskapnaður. Hann sagði að í frumvarpinu væri fólgin fyrirætlun um að fara á svig við stjórnarskrána; að hafa af þjóðinni stjórnarskrábundinn rétt til að kjósa um lagafrumvarp sem forseti hefur synjað staðfestingar. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði stjórnarandstöðuna m.a. hafa lýst því yfir að æskilegt væri að afnema þessi lög og það væri það sem nú væri verið að gera. Þá kváðu við hlátrasköll í þingsalnum frá þingmönnum stjórnarandstöðu. Halldór sagði að síðan væri verið að flytja annað frumvarp þar sem væru tvær mjög veigamiklar breytingar.  Einar K. Guðfinnsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort hlátrasköll stjórnarandstöðunnar, sem og mannabreytingar í allsherjarnefnd, bæru vitni um það að hún ætli ekki að vinna efnislega að málinu í þinginu og standa þess í stað í endalausum upphlaupum. Hægt er að horfa á fréttina og brot úr ræðum þingmanna með því að smella á hlekkinn sem fylgir fréttinni í fréttayfirlitinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×