Innlent

Breytingar á frumvarpi hugsanlegar

Innan ríkisstjórnarinnar er það ekki útilokað að nýja fjölmiðlafrumvarpið taki breytingum í meðferð allsherjarnefndar. "Í þingnefndinni er ekkert útilokað að [...] gera breytingar á þeim texta sem lagður er fram í þessu frumvarpi," sagði Geir H. Haarde, fjármálaráðherra í ræðu sinni um frumvarpið á Alþingi. Að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns nefndarinnar, er ekki útilokað að breytingar verði gerðar á því ákvæði frumvarpsins er varðar rétt til að afturkalla útvarpsleyfi þegar lögin taka gildi árið 2007. "Ef þetta frumvarp verður óbreytt hvað þetta atriði varðar má segja að það sem við fjölluðum um í nefndaráliti okkar í vor eigi við meira eða minna óbreytt," segir Bjarni. "Við tókum á því í nefndarálitinu að sú staða kynni að koma upp að ríkið yrði bótaskylt. Deilurnar um þetta ákvæði þá stóðu að hluta til um það hvort rétt væri að veita útvarpsréttarnefnd heimild til þess að afturkalla útvarpsleyfi. Þetta nýja frumvarp er sambærilegt frumvarpinu sem lá fyrir þinginu í vor hvað þetta atriði varðar. Niðurstaða þingsins í vor var að setja inn bráðabirgðaákvæði til að framlengja þau leyfi sem runnu út til 2006 fram að því tímamarki og að leyfa öðrum leyfum að renna út," segir Bjarni. Spurður um hvort niðurstaða þingsins yrði ekki sú sama nú, segir hann að það yrði "verulega mikil tilslökun" en það væri þó ekki útilokað. Stjórnarliðar sögðu við Fréttablaðið í gær að þeir teldu að stjórnarandstaðan væri ekki í sáttahug og því væri ekki útlit fyrir einhug um hvaða breytingar frumvarpið ætti að taka í nefnd. Stjórnarandstaðan myndi hafna hvaða breytingartillögum sem lagðar yrðu fram því það væri hagur þeirra að ósátt væri um málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×