Innlent

Kom á óvart að Kristinn hætti ekki

Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir að það hafi komið sér á óvart að Kristinn H. Gunnarsson hafi kosið að starfa áfram í Framsóknarflokknum í kjölfar ákvörðunar stjórnar þingflokksins að útiloka hann úr þingnefndum. Spurður hvers vegna Kristinn hafi ekki verið beðinn um að hætta, fyrst um jafnmikinn trúnaðarbrest hafi verið að ræða og Hjálmar hafi lýst yfir, segir Hjálmar að stjórn þingflokksins hafi ekki vald til þess að reka hann úr flokknum. "Kristinn verður að eiga við sjálfan sig hvort hann telji sig vilja vinna með okkur. Hann hefur sagt að svo sé og kemur það mér reyndar á óvart," segir Hjálmar. Hjálmar segir að þeir sem hafi fylgst með yfirlýsingum Kristins síðustu misserin hljóti að spyrja hvort hann sé í raun og veru að berjast undir sömu merkjum og aðrir í Framsóknarflokknum. "Kristinn hefur meira að segja gengið svo langt að segja sjálfur í viðtölum að þingmenn séu bara lyddur og druslur sem hafi ekki sjálfstæðan vilja. Þannig talar hann um félaga sína," segir Hjálmar. Hér má lesa ítarlegt fréttaviðtal Sigríðar Daggar Auðunsdóttur við Hjálmar Árnason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×