Erlent

Blá föt og rautt bindi

Þótt þeir George W. Bush og John Kerry séu á öndverðum meiði í flestum málum þá eru þeir samstiga í fatavali: dökkblá jakkföt, hvít skyrta og rautt bindi. Sighvatur Haraldsson, í Herragarðinum, segir að löng hefð sé fyrir þessari fatasamsetningu í bandarískum stjórnmálum því rannsóknir hafi sýnt að almenningur treysti fólki best sem skartar þessu litum. Blátt bendir til að manninum sé treystandi en örlítið rautt gefur til kynna áræðni og djörfung. Menn verða þó að gæta að jafnvægi í þessum efnum því hætt er við að frambjóðandi í rauðum jakkafötum og með blátt bindi færi halloka í baráttunni. Sighvatur segir að þessi tíska hafi breiðst út til Evrópu og þannig megi gjarnan sjá Tony Blair, forsætisráðherra Breta, í þessari múnderingu. Íslenskir stjórnmálamenn hafa eitthvað tileinkað sér samsetninguna en Sighvatur telur þó að þeir séu almennt djarfari en starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum. "Það er hið besta mál," segir Sighvatur í Herragarðinum að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×