Innlent

Styddi hallarbyltingu í sósíalísku

Níu mánuðum eftir að Sigurður Ingi Jónsson, oddviti Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir síðustu þingkosningar, sagði sig úr flokknum vegna óánægju með stefnu flokksins og varaformanninn segir hann flokkinn ekkert hafa breyst en heldur opnum þeim möguleika að snúa aftur og taka þátt í hallarbyltingu gegn forystunni. "Ég er náttúrlega mjög ósáttur við þá stefnu sem flokkurinn hefur tekið. Mér finnst framganga flokksins hafa einkennst af verkalýðsforystutilburðum fyrir smábátasjómenn og ganga þvert á yfirlýsta stefnu um að flokkurinn sé hægra megin við miðju í stjórnmálum, mér finnst hann vera miklu meira út í að vera sósíalískur flokkur." Kornið sem fyllti mælinn var þegar Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður var valinn þingflokksformaður. Sigurður var ósáttur við að hann talaði þvert á stefnu flokksins í nokkrum málum og ekki síður sum skrif hans á spjallvef, svo sem þegar hann lagði til að sprengjum yrði varpað á nokkra forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Sigurður segist ekki sjá að úrsögn sín hafi breytt neinu um framferði Magnúsar. "Þó ég sé ekki í flokknum er ég í góðu sambandi við ýmsa í flokknum, bæði í miðstjórn og þingflokki. Ég kvaddi með þeim orðum að ég myndi ekkert gera með eða fyrir þennan flokk undir núverandi forystu og að ef ég kæmi aftur til flokksins væri það til að taka þátt í hallarbyltingu. Auðvitað brýst það í manni," segir Sigurður Ingi sem telur að ef ekkert verði að gert lognist flokkurinn út af og hverfi í næstu kosningum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×