Barcelona með tólf stiga forystu
Barcelona sigraði Levante 2-1 í spænsku 1. deildinni í gærkvöld og náði tólf stiga forystu á granna sína í Espanol. Barcelona tók forystuna á 28. mínútu þegar Deco skaut í varnarmann og þaðan fór boltinn í netið. Mateu Jofre jafnaði metin hálftíma fyrir leikslok en þegar fjórar mínútur voru eftir skoraði Kamerúninn Samuel Eto´o sigurmark Barcelona. Forráðamenn spænska fótboltaliðsins Real Betis ætla ekki að selja útherja sinn, Joaquin, til enska liðsins Chelsea. Chelsea-menn vilja ólmir kaupa strákinn sem skoraði eina mark Betis sem vann Athletico Madríd í gærkvöldi. Átta leikir verða í spænsku deildinni í kvöld. Leikur Real Madríd og Sevilla verður sýndur beint á Sýn klukkan 20.