Mesta hrina snjóflóða í níu ár
![](https://www.visir.is/i/0D588C9CCE8B57DD6ADD1AC93D2B0F03314367C2BD3B3D455B2614E0BB75CB2A_713x0.jpg)
Veðurstofu Íslands hafa borist upplýsingar um sjötíu snjóflóð frá jólum til sjötta janúar. Langflest flóðanna féllu á Vestfjörðum, nokkur flóð féllu í Ólafsfjarðarmúla en lítið annars staðar. "Önnur eins snjóflóðahrina hefur ekki komið síðan árið 1995," segir Leifur Örn Svavarsson, á snjóflóðavakt Veðurstofunnar. Veðurstofan heldur skrá yfir öll fallin snjóflóð sem tilkynnt er um. Það eru snjóflóð sem fallið hafa nálægt þéttbýli eða hafa fallið á vegakerfið. Ekki hafa borist fregnir af snjóflóði síðan sjötta janúar. Enginn heldur tölu yfir flóð sem falla í dreifbýli og á fjalllendinu. "Snjóflóðið sem féll úr Hraunsgili í Hnífsdal hefur mörg hundruð ára endurkomutíma. Þó mælingum þar sé ekki lokið er ljóst að mörg hundruð ef ekki þúsund ár geta liðið á milli svo stórra snjóflóða úr því gili," segir Leifur Örn.