Innlent

Safnað fyrir fórnarlömb Tsunami

Hljómsveitirnar Manic Street Preachers, Snow Patrol, Embrace og söngvarinn Badly Drawn Boy hafa öll staðfest mætingu á Live-Aid tónleikana á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff til styrktar fórnarlömbum hamfaranna í Asíu. Einnig munu Eric Clapton, Feeder og Lemar koma fram á tónleikunum, sem haldnir verða þann 22. janúar. Skipuleggjendur vonast til þess að safna einni milljón punda fyrir fórnarlömb hamfaranna. Nú þegar hafa 45.000 miðar verið seldir, þar af 20.000 á fyrsta klukkutíma sölunnar. "Viðtökurnar hafa verið stórkostlegar um helgina. Seldir miðar náðu 45.000 á sunnudeginum, sem er alveg stórkostlegt afrek," sagði Paul Sergeant, einn skipuleggjenda hátíðarinnar. "Við erum himinlifandi með viðtökurnar. Þessir tónleikar gefa fólki tækifæri til þess að koma saman og votta fórnarlömbum hamfaranna virðingu sína." Bandaríkjamenn munu einnig leggja sitt af mörkum fyrir málefnið og hyggjast senda út sjónvarpsþátt í þeim tilgangi að safna peningum til styrktar fórnarlambanna. Í þættinum munu koma fram listamenn eins og Madonna, Diana Ross og Maroon 5. Leikararnir láta ekki sitt eftir liggja og munu George Clooney, Kevin Spacey og Uma Thurman koma fram í þættinum, sem sýndur verður á NBC-sjónvarpsstöðinni þann 15. janúar næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×