Innlent

Landsfundur Samfylkingar í vor

Allar líkur eru á því að landsfundur Samfylkingarinnar verði haldinn strax í vor. Þá verður komið í ljós hvort Össur Skarphéðinsson eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður formaður flokksins.  Ingibjörg Sólrún lýsti því yfir haustið 2003 að hún myndi gefa kost á sér í formannssæti Samfylkingarinnar. Það hefur ekki breyst og segir hún það eðlilegt framhald af því forystuhluverki sem henni var falið fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Áætlað var að landsfundur Samylkingarinnar yrði í haust en allt bendir til að honum verði flýtt. Fyrir því eru ýmis rök. Meðal annars þau að mánuði fyrir landsfund fer formannskosningin fram og vilja sumir meina að illu sé best af lokið. Innanbúðarmenn segja að búast megi við langvinnum innanflokksátökum vegna kosninganna og að flokkurinn fái þá meiri tíma til að einbeita sér að undirbúningi sveitarstjórnarkosninga, með nýjum eða endurkjörnum formanni. Aðspurð hvort hún telji sig geta gert betur en Össur í formannssætinu segir Ingibjörg að frammistaða flokks ráðist ekki eingöngu af formanni heldur sé margt sem komi þar til álita. Það sé margt sem hún vilji gera innan Samfylkingarinnar og hún vill sækja umboð flokksmanna til þeirra verka eftir þessum leiðum. Hún telur ekki að baráttan um stólinn muni skaða flokkinn því kosningarnar séu eðlilegar og lýðræðislegar í stórum flokki sem Samfylkingunni. Og Samfylkingarmenn búast við skemmtilegum og hörðum átökum um formannssætið, enda mikið undir. Kannski einn forsætirráðherrastóll eða svo, eins og það var orðað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×