Innlent

Bjargaði stúlku úr brennandi íbúð

Hinrik Ingi Guðbjargarson á Akureyri sýndi snarræði er hann bjargaði stúlku út úr brennandi íbúð í kjallaranum að Hafnarstræti 100 kl. 20.30 á föstudagskvöldið. "Það skíðlogaði í eldhúsinu en stúlkan lá meðvitundarlítil inni á baði," segir hann. Sjálfur býr hann í húsinu en það voru stúlkur í næstu íbúð fyrir ofan kjallarann sem urðu brunans varar og hringdu á slökkviliðið, sem mætti á staðinn örfáum mínútum eftir að stúlkunni var bjargað. Hinrik lýsir atburðinum svo: "Ég fór út á götu og þar var hópur af krökkum sem sögðust vera búin að berja á alla glugga en enginn hefði svarað. Ég ákvað samt að fara inn og þá fann ég stúlkuna." Að sögn slökkviliðs var talsverður eldur og mikill reykur á staðnum er það kom að en greiðlega gekk að slökkva eldinn og reykræsta íbúðina. Ekki er ljóst hvort kviknaði í út frá örbylgjuofni eða kerti en eldurinn var bundinn borði sem hvort tveggja stóð á. Stúlkan var flutt á sjúkrahús með snert af reykeitrun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×