Innlent

Varaformannsslagur í uppsiglingu?

Varaformannsslagur gæti verið í uppsiglingu í Samfylkingunni. Til stóð að formannsframbjóðendur Samfylkingarinnar mættust á opnum fundi Samfylkingarinnar á Akureyri í dag í fyrsta sinn síðan formannsslagurinn hófst. Ekkert varð úr því þar sem Ingibjörg Sólrún varð verðurteppt í Reykjavík. En það er ekki bara formannsslagur heldur þarf að velja varaformann á landsfundinum í lok maí. Ungliðar flokksins vilja einn úr sínum röðum í embættið og samkvæmt heimildum vilja þeir sameinast um Ágúst Ólaf Ágústsson. Hann hefur ekki gefið það frá sér. Þá vill Samfylkingin á Akureyri að næsti varaformaður komi af landsbyggðinni. Kristján Möller hefur verið nefndur í því sambandi en hann segist ekki vera farinn að hugleiða það og menn hafi ekki komið að máli við sig. Þó ekki hafi allir frummælendur komist á fundinn í dag, bar óvæntan gest að garði því Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og þingmaður Framsóknarflokks, kíkti inn um dyragættina og óskaði fundargestum velfarnaðar. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×