Innlent

Könnunin skemmtilegt gisk

Einungis rúm tuttugu prósent kjósenda Samfylkingarinnar telja að Össur Skarphéðinsson verði endurkjörinn formaður á landsfundi í vor. Yfirgnæfandi meirihluti er á því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði formaður, samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Össur segist hvergi banginn. Tveir þriðju hlutar landsmanna telja mestar líkur á því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði valin formaður Samfylkingarinnar í vor en aðeins þriðjungur telur Össur Skarphéðinsson líklegri til að hreppa hnossið, samkvæmt könnuninni sem var gerð 1. febrúar síðastliðinn og var hringt í 800 manns. Ríflega áttatíu prósent svöruðu. Sé einungis tekið tillit til þeirra sem segjast kjósendur Samfylkingarinnar er munurinn enn meiri því í þeim hópi telja 77 prósent Ingibjörgu Sólrúnu sigurstranglegri en ríflega 21 prósent er á því að Össur verði endurkjörinn. Tekið skal fram að þar sem aðeins hundrað og sextíu af þeim sem spurðir voru kváðust Samfylkingarmenn er niðurstaðan ekki marktæk en gefur engu að síður vísbendingu um stöðuna innan flokksins. Össur segir könnunina í raun skemmtilegt gisk Fréttablaðsins. Spurt sé „hverju menn spái“ en „ekki hvað menn vilji“. Það sé stór galli á könnuninni. Og hann segir engum blöðum um það að fletta að fyrrverandi borgarstjóri og næstöflugasti stjórnmálamaður landsins um langt skeið komi sterkur inn í svona baráttu. „Ég er hins vegar alfarið þeirrar skoðunar eftir að hafa farið um landið að ég stend miklu betur í hinum virka kjarna flokksmanna en kemur þarna fram,“ segir Össur og kveðst eiga von á að myndin eigi eftir að breytast þegar nær dregur kosningunum. Niðurstöðurnar eru þó mjög afgerandi, hvernig sem aðferðarfræðin er, og Össur getur ekki annað en játað því. „Það má örugglega draga þá ályktun af þessari niðurstöðu að ég sé ekki með vindinn í bakið,“ segir formaðurinn. Ekki náðist í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir fréttir þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir spurningu Fréttablaðsins vissulega skipta máli því spurt hafi verið um hver sé talinn líklegur sigurvegari, en ekki hvern menn vilji helst. Hann segir sérstaklega athyglisvert að allmikill munur sé á viðhorfum kjósenda Samfylkingarinnar og kjósenda annarra flokka. Svanur telur að fylgismenn Ingibjargar Sólrúnar geti nú lagst út af og slappað af en menn Össurar ákveðið að berjast. Og gerist það sé allt opið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×