Innlent

Dagskrárstjóri Rásar 2 segir upp

Fréttamenn á fréttastofum ríkisútvarpsins lýsa vanþóknun sinni á því sem þeir kalla ósæmileg afskipti útvarpsráðs af starfi fréttamanna með því að mæla með Auðuni Georg Ólafssyni í starf fréttastjóra Útvarps. Þeir mótmæla ákvörðun Markúsar Arnar Antonssonar útvarpsstjóra að ráða Auðun og skora á hinn nýja starfsmann að taka ekki starfið, samkvæmt ályktun þeirra á fundi í gærkvöldi. Jóhann Hauksson, dagskrárstjóri Rásar 2 og einn umsækjendanna fimm sem forstöðumaður fréttasviðs mælti með, hefur sagt upp störfum. "Útvarpsstjóri hefur bitið höfuðið að skömminni með því að fara eftir áliti útvarpsráðs og ráða pólitískt þvert ofan í faglegt mat. Hann virðist hafa haft einhver önnur sjónarmið að leiðarljósi heldur en hagsmuni Ríkisútvarpsins," segir Jóhann og því segi hann upp störfum. Friðrik Páll Jónsson, annar umsækjendanna sem Bogi mælti með og varafréttastjóri sem gegnt hefur stöðu fréttastjóra frá því í desember, segir rök útvarpsráðs um að fréttastjóri beri ábyrgð á daglegum rekstri fréttastofu Útvarps fyrirslátt. Hann hafi setið tæplega hálfrar klukkustundar fund um fjármál frá því hann tók við starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×