Erlent

Þriðjungur hersins heim

Sýrlendingar lofa að kalla þriðjung hersveita sinna í Líbanon heim fyrir lok þessa mánaðar og hafa samþykkt áætlun sem gerir ráð fyrir að hernaðarafskiptum Sýrlendinga í Líbanon ljúki. Engin tímamörk eru þó sett um endanlegt brotthvarf. Áætlunin sem Sýrlendingar samþykktu gerir ráð fyrir tveimur stigum og því fyrra á að ljúka fyrir lok marsmánaðar. Í því felst að þriðjungur hermanna Sýrlendinga haldi frá Líbanon og að allir hermenn sem og leyniþjónustumenn haldi einungis til í Bekaa-dalnum, skammt frá landamærum Sýrlands. Í seinna stiginu felst að hernaðarafskiptum Sýrlendinga í Líbanon ljúki endanlega en enn sem komið er hefur ekki verið gengið frá neinni dagsetningu fyrir það skref sem vakið hefur nokkrar efasemdir meðal Bandaríkjamanna. Það var þrýstingur frá þeim, sem og Evrópuþjóðum og arabaríkjum og mótmælendum í Líbanon, sem varð þess valdandi að stjórnvöld í Damaskus sáu sér þann kost vænstan að gefa eftir og samþykkja þær hugmyndir sem Terje Roed-Larsen, sendifulltrúi Kofis Annans, lagði fram á fundi með Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í gær. Í byrjun aprílmánaðar eiga fulltrúar sýrlenskra og líbanskra hermálayfirvalda að hittast til að ræða endanlegt brotthvarf. Niðurstaða þess fundar verður í raun prófið sem Sýrlendingar verða að standast til að efasemdarmenn sannfærist, en ef Sýrlendingar beita áhrifum sínum í Líbanon, sem eru töluverð, og niðurstaða fundarins verður loðin, er hætt við að enn verði sótt að stjórn Assads forseta og þrýstingurinn aukist á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×