Innlent

Segir ráðningaraðferðir úreltar

Aðferðir við mannaráðningar á Ríkisútvarpinu hafa gengið sér til húðar, segir menntamálaráðherra. Stjórnarflokkarnir hafa samþykkt nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið sem verður dreift á morgun. Umdeild ráðning fréttastjóra Ríkistúvarpsins var rædd á Alþingi í dag að frumkvæði stjórnarandstöðunnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tilkynnti að stjórnarflokkarnir hefðu í dag samþykkt nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið og gaf í skyn að í því fælust breytingar á hlutverki útvarpsráðs varðandi mannaráðningar. Hún sagði að núverandi fyrirkomulag við mannaráðningar hefði að hennar mati gengið sér til húðar. Það væri von hennar að þingmenn tækjust saman á við að endurnýja lög um Ríkisútvarpið, stofnuninni til heilla. Þorgerður vildi ekki ræða frumvarpið nánar en því verður dreift á morgun og væntanlega tekið til umræðu síðar í vikunni. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði fréttastjóramálið sýna að Framsóknarflokknum þætti fréttastofan ekki nógu þæg. „Það er ekki í Ríkisútvarpinu sem þarf að moka út. Það er í stjórnarráðinu sem þarf að moka út og setja þar á sterkar viftur til að losna við framsóknar-sjálfstæðisódauninn sem er að gera ólíft í þeim híbýlum,“ sagði Steingrímur. Jón Gunnar Grjetarsson, formaður Félags fréttamanna, fór ásamt Brodda Broddasyni á fund útvarpsstjóra í morgun. Hann segir að hvorki afstaða fréttamanna né útvarpsstjóra hafi breyst eftir fundinn. Nú er komin biðstaða í málið þar sem yfirmenn eru að fara til útlanda. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri vildi ekki veita Stöð 2 nein viðtöl um málið í dag þrátt fyrir ítrekaðar óskir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×