Innlent

Af­skipti af bif­reið endaði með hand­töku fjögurra manna

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskitpi af bifreið í Garðabæ sem endaði með handtöku fjögurra manna.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskitpi af bifreið í Garðabæ sem endaði með handtöku fjögurra manna. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af bifreið í Garðabæ í dag en eftir að bifreiðin hafði verið stöðvuð kom í ljós að fjórir væru innanborðs sem var umfram þann farþegafjölda sem skráningarskírteini bifreiðarinnar heimilaði. Mennirnir fjórir voru síðan allir handteknir grunaðir um ólöglega dvöl hér á landi.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mennirnir komu sér fyrir í bifreiðinni með því að liggja ofan á verkfærum og öðrum munum í farangursrýminu. Þeir voru einnig handteknir fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga. 

„Ökumaðurinn var þá einnig grunaður um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem og án ökuréttinda. Allir aðilarnir voru fluttir á lögreglustöð og vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins áður en þeir voru yfirheyrðir.“

Í dagbók lögreglu er einnig greint frá þó nokkrum umferðarlagabrotum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Einni var tilkynnt um þjófnað í matvöruverslun í Kópavogi sem var afgreitt á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×