Innlent

Mikil ásókn í Lambaselslóðir

Alls bárust 136 umsóknir um þrjátíu einbýlishúsalóðir í Lambaseli í Breiðholti á fyrsta umsóknardegi sem var í gær. Vagnbjörg Magnúsdóttir, deildarfulltrúi á skrifstofu framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, segir aðsókn í lóðirnar rétt eins og um síðasta dag úthlutunar væri að ræða. Fólk feli ekki að það sæki um fyrir ættingja og vini: "Fjölmargir hafa komið og sótt gögn. Við höfum vart undan." Fjölskylda auglýsti eftir að kaupa lóð í Lambaseli á rúmar þrjár milljónir af þeim sem fengi úthlutað. Er það andstætt reglum sem Vagnbjörg segir skýrar og strangari en áður. Hún segir ekki nægilegt að byggja sökkla áður en selt sé heldur verði húsið að vera fullklárað. "Brjóti lóðarhafinn gegn þessari reglu má hann vænta að fá ekki aftur úthlutaði lóð í Reykjavík á næstu árum," segir Vagnbjörg. Síðasti umsóknardagur er 7. apríl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×