Innlent

Ráðningin verði endurskoðuð

Alþjóðasamtök blaðamanna hafa lýst yfir fullum stuðningi við fréttamenn á fréttastofu Ríkisútvarpsins sem hafa hótað aðgerðum ef ráðning Auðuns Georgs Ólafssonar, nýráðins fréttastjóra, verður ekki dregin til baka. Eins og greint hefur verið frá réð Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri Auðun Georg til starfa eftir að meirihluti útvarpsráðs hafði greitt honum atkvæði sitt. Starfsmenn fréttastofunnar hafa farið fram á að útvarpsstjóri endurskoði þá ákvörðun sína auk þess sem skorað hefur verið á Auðun Georg að taka ekki við starfinu í kjölfar þess uppnáms sem ráðning hans hefur ollið. Í stuðningsyfirlýsingu alþjóðasamtakanna segir að nýráðinn fréttastjóri sé ekki jafn hæfur og aðrir umsækjendur, auk þess að tengjast stjórnmálaflokknum sem leiði ríkisstjórn landsins fjölskylduböndum og eiga vini innan forsætisráðuneytisins. Ráðningin sé því ekki trúverðug og ógni ritstjórnarlegu sjálfstæði fréttastofunnar. Samtökin skora því á stjórnendur Ríkisútvarpsins að endurskoða ráðningu nýs fréttastjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×