Innlent

Segir söluferli Símans gagnsætt

Jón Sveinsson, formaður einkavæðingarnefndar, segir unnið að því að skilgreina vægi hvers þáttar sem horft verður til þegar tilboð fjárfesta í Símann verða metin. Það verði kynnt um leið og verklagsreglurnar liggi fyrir. Í auglýsingu um sölu Símans í fjölmiðlum í gær er tekið fram að við mat á tilboðum verði meðal annars horft til fjárhagslegs styrks, reynslu af rekstri fyrirtækja og framtíðarsýnar varðandi rekstur Símans. Í fréttabréfi greiningardeildar Íslandsbanka í gær segir að við fyrstu sýn virðist svigrúm fyrir huglægt mat við val á tilboðsgjafa. Æskilegra sé að reglur sem gildi við mat á tilboðum séu gagnsæjar. Jón segir að þessar reglur verði gagnsæjar þegar einkavæðingarnefnd kynnir vægi þeirra þátta sem horft verði til. Upplýsingagjöf varðandi söluferlið verði regluleg eftir því sem efni standi til og málsmeðferðin málefnaleg. Í fréttum Íslandsbanka segir að hópur í kringum Burðarás, Landsbankann og eigendur Samsonar annars vegar og hópur í kringum Meið, Vís og KB banka hins vegar séu augljósir bjóðendur í Símann. Fleiri hópar muni væntanlega gera tilboð. Á hinn bóginn minnki þetta fyrirkomulag, að enginn megi eiga meira en 45 prósent, líklegast áhuga erlendra símafyrirtækja á að bjóða í Símann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×