Innlent

Kárahnjúkar með axlabönd og belti

Formaður Vinstri - grænna sagði það hneyksli að Kárahnjúkavirkjun hefði verið troðið í gegnum Alþingi um leið og viðvaranir vísindamanna um misgengissprungur hefðu verið þaggaðar niður. Iðnaðarráðherra sagðist hins vegar í þingumræðum í dag þess fullviss að engin hætta væri á ferðum og sagði virkjunina með tvenn axlabönd og tvö belti. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, stóð fyrir utandagskrárumræðu um stíflustæðið við Kárahnjúka og nýjar jarðfræðiupplýsingar sem kallað hefðu á nýtt áhættumat. Stuðningsmenn framkvæmdanna sökuðu Steingrím um að mála skrattann á vegginn og bentu á að það myndi aðeins kosta 100 til 150 milljónir króna að styrkja stíflur til að mæta nýju áhættumati. Steingrímur sagði að varnaðarorð vísindamanna, sem þögguð voru niður, hefðu nú verið staðfest. „Skömmin er þeirra, stjórnvalda, vísindamanna og fyrirtækja, sem höfðu þetta að engu ... á þeim tíma sem átti að taka þetta alvarlega og rannsaka þetta frekar,“ sagði Steingrímur og bætti við að það lægi fyrir að kostnaðurinn vegna þessa væri upp á nokkra milljarða, en ekki 100 til 150 milljónir. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra benti á að stíflur Kárahnjúkavirkjunar væru hannaðar til að standast sömu áraun vegna jarðskjálfta og stíflur á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, sem þó væri margfalt virkara. Hún kvaðst því fullviss um að ekki væri hætta á ferðum á Kárahnjúkasvæðinu. „Ég hef áður talað, í sambandi við óskylt mál, um belti og axlabönd. Ég held að í þessu tilfelli sé óhætt að tala um tvenn axlabönd og tvö belti,“ sagði Valgerður



Fleiri fréttir

Sjá meira


×