Innlent

Skoða þarf fjármál flokkanna

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra vill á ný koma á fót nefnd fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem hafi það verkefni að leggja mat á þörf fyrir lagaumbætur sem snerta fjármál stjórnmálaflokkana. Þetta kemur fram í skýrslu sem hann lagði fram á Alþingi í gær, en tilefni hennar er beiðni Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri þingmanna um skýrslu frá forsætisráðherra um fjárframlög til starfsemi stjórnmálaflokka, sem var lögð fram fyrr í vetur. Í skýrslunni segir að forsætisráðuneytið telji mikilvægt að samstaða sé milli stjórnmálaflokkana um meginreglur í þessum efnum og eðlilegt sé að stefnumörkun sé í höndum forsætisráðuneytisins. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að árið 2000 hafi opinberir styrkir til stjórnmálaflokka numið 136 milljónum króna en aukist í 200 milljónir króna árið 2004. Fyrirtæki og einstaklingar hafa samkvæmt lögum heimild til að draga frá tekjum sínum framlög til líknarstarfsemi, menningarmála og stjórnmálaflokka svo nokkuð sé nefnt. Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra hefur fjöldi einstaklinga og fyrirtækja, sem nýtir sér þennan frádrátt, meira en tvöfaldast á undanförnum sjö árum. Sú upphæð, sem færð var til frádráttar á þessu tímabili, nam tæpum 200 milljónum króna árið 1998 en hafði hækkað í liðlega 680 milljónir króna árið 2004. Í ljósi skýrslunnar telur forsætisráðherra rétt að taka til endurskoðunar ýmis atriði í löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hann telur jafnframt að þótt ákvæði stjórnarskrár sem fjallar um félagafrelsi feli í sér sérstaka vernd fyrir stjórnmálaflokkana sé ekki hægt að líta svo á að sú staðreynd girði fyrir að settar verði almennar reglur um fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokka, enda samrýmist þær þeim sjónarmiðum sem lögð séu til grundvallar á alþjóðavettvangi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×