Sport

Töpum ekki heima fyrir Haukum

ÍBV og Haukar mætast í öðrum leik lokaúrslitanna í DHL-deild kvenna í handbolta í Vestmannaeyjum í kvöld. Haukastúlkur unnu fyrsta leikinn á Ásvöllum, 22-19, á laugardaginn en Íslandsmeistarar ÍBV hugsa sér væntanlega gott til glóðarinnar í leiknum í kvöld. Alfreð Finnsson, þjálfari ÍBV, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að það væri mikill hugur í hans stúlkum. "Það var deyfð yfir okkur í síðasta leik og það er nokkuð sem þarf að bæta. Ég get bara talað fyrir sjálfan mig en ég er búinn að bíða lengi eftir tækifæri til að spila í lokaúrslitum. Ég vona bara að leikmennirnir séu sama sinnis," sagði Alfreð, sem viðurkenndi að hans stúlkur hefðu ekki spilað vel í fyrsta leiknum. "Við höfðum tækifæri til að stela leiknum því Haukastúlkur gáfu færi á sér. Sóknarleikur okkar var hins vegar ekki nógu góður, við gerðum of mikið af mistökum og fengum allt of mikið af hraðaupphlaupum á okkur. Við fengum ekki heldur eitt einasta hraðaupphlaup í fyrsta leiknum og það segir sig sjálft að við verðum ekki Íslandsmeistarar þegar slíkt er uppi á teningnum. Við þurfum að bæta sóknarleikinn og hugarfarið og með góðum stuðningi heimamanna fer þetta vel." Alfreð sagði það lykilatriði að vinna leikinn í kvöld. "Ég get fullyrt að við töpum ekki heima fyrir Haukum. Við þurfum að vinna einn útileik til að verða Íslandsmeistarar - svo einfalt er það."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×