Sport

Reynir ráðinn þjálfari KA

Reynir Stefánsson sem hefur verið aðstoðarmaður Jóhannesar Bjarnasonar hefur verið ráðinn þjálfari KA til næstu tveggja ára. Ásamt því að vera aðstoðarmaður Jóhannesar undanfarin 3 ár þá hefur Reynir þjálfað 2. flokk félagins með góðum árangri. Fréttablaðið náði tali af Reyni og spurði hann hvort þetta væri ekki viðurkenning fyrir það góða starf sem hann hefur unnið fyrir félagið. "Þetta er vissulega ákveðin viðurkenning fyrir mig, það er ekki hverjum sem er hleypt hér að. Ég er búinn að þjálfa síðan ég var 16 ára og unnið með mönnum eins og Heimi Ríkharðssyni, Guðmundi Guðmundssyni og Atla Hilmarssyni og ég tel mig í stakk búinn fyrir þetta starf." Reynir sagðist enn fremur ekki búast við miklum breytingum á leikmannahópi liðsins. "Það er komið á hreint að það verða allir leikmenn liðsins áfram og það er mikið ánægjuefni og svo stefnum við á að styrkja liðið um 2-3 leikmenn fyrir næsta vetur og þar er örvhent skytta efst á forgangslistanum," sagði Reynir Stefánsson nýráðinn þjálfari KA.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×