Innlent

Börnin stimpluð sem lyfjafíklar

Þingmenn fá ákúrur frá foreldri barns sem gefið er rítalín vegna hegðunarvanda. Faðir stúlku, sem átt hefur við mikla ofvirkni að stríða frá sjö ára aldri, segir umræður um lyfjanotkun barna í þingsölum stimpla fólk í hans stöðu og börn þeirra sem lyfjafíkla og sníkjudýr í þjóðfélaginu. Þingmenn voru slegnir á Alþingi í gær vegna upplýsinga um heimsmet íslenskra barna í notkun rítalíns sem gefið er við hegðunarröskun. Drífa Hjartardóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort ekki væri hægt að leita annarra leiða en að setja þjóðina nánast alla á geðdeyfðarlyf og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði meðal annars að foreldrar og kennarar barna með hegðunar- og geðraskanir hafi haft samband við sig og undrast hversu lítið þyrfti til að börn væru sett á sterk geðlyf. En fleiri hafa sett sig í samband við þingmenn vegna þessa, líkt og faðir ofvirkrar stúlku sem stríðir auk þess við lesblindu og athyglisbrest. Í bréfi til þingmanna varar hann við að umræðan stimpli alla foreldra sem eru með börn á slíkum lyfjum sem tóma aumingja sem nenni ekki að ala upp börnin sín. Hann segir að umræður þingmanna hafi verið óvarlega fram settar og af hugsunarleysi, án tillits til notenda þessara efna. Bendir hann á að þessi börn horfi á sjónvarp og hlusti á útvarp. Umræðan eins og hún hafi verið stimpli alla foreldra og börn þeirra sem lyfjafíkla og sníkjudýr. Þá ítrekar hann að lyfjagjöf til barna sé flestum foreldrum, ef ekki öllum, neyðarúrræði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×