Innlent

Landbúnaðarstofnun á Suðurlandi?

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segir að vilji sé til þess innan þingsins að ný Landbúnaðarstofnun verði staðsett utan höfuðborgarsvæðisins. Reykir í Ölfusi og Selfoss koma helst til greina.  Landbúnaðarráðherra segir þó enn ekki ákveðið hvor staðurinn verði fyrir valinu; fyrst þurfi að ráða framkvæmdastjóra til að vera með í ákvörðuninni. Guðni leggur þó áherslu á að endanleg ákvörðun sé hans. Landbúnaðarstofnun mun sameina í eitt margar smærri stofnanir sem flestar hafa nú höfuðstöðvar í Reykjavík. Um er að ræða embætti yfirdýralæknis, veiðimálastjóra, kjötmats, plöntueftirlits og annarra stofnana. Gert er ráð fyrir að nýr framkvæmdastjóri taki til starfa þann 1. ágúst næstkomandi en stofnunin sjálf taki yfir störf fyrri stofnanan frá og með 1. janúar 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×