Innlent

Ráðherra gangi erinda Norðlendinga

Ýmislegt virðist vera að gerast í álmálum þessa dagana. Alcoa hefur lýst yfir áhuga á að reisa álver á Norðurlandi og verið er að stofna félög bæði með og á móti stóriðju í Eyjafirði. Sjálfstæðismenn á Suðurnesjum eru ósáttir við iðnaðarráðherra en þeir telja ráðherrann eingöngu ganga erinda Norðlendinga. Landshluta- og hrepparígur eru líklega tilhlýðileg orð til að lýsa ástandinu þessa dagana í álmálum. Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau ummæli Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra að ekki beri að fagna viljayfirlýsingu Norðuráls, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja um athugun á hagkvæmni álvers í Helguvík eru hörmuð. Þykir sjálfstæðismönnum einsýnt að iðnaðarráðherra líti eingöngu á sig sem ráðherra síns kjördæmis en ekki landsins alls. Um leið reynir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, að mynda þá samstöðu norðan lands sem ráðherrann bað um og leggur til að Húsavík verði fyrsti kostur fyrir álver á Norðurlandi og Dysnes í Eyjafirði sá næsti. Magnús Þór Ásgeirsson, formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, og Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík, voru þó ekki á því á dögunum að forsendur væru fyrir samstöðu Norðlendinga, þeir myndu berjast um hylli fjárfesta hver á sínum stað hvað sem líði viljayfirlýsingu um uppbyggingu í Helguvík. Hrepparígurinn er þó ekki bundinn við Norðurlandið því á Reykjanesi virðist barátta vera í uppsiglingu milli álversins í Straumsvík, sem hyggur á stækkun og þarf þá töluverða orku í viðbót, og Norðuráls sem gerði Helguvíkursamkomulagið sem kom öllu af stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×