Sport

Björgvin og Ólafur til Eyja

Þessa stundina vinna menn í Vestmannaeyjum á fullu í leit að liðsstyrk fyrir karlalið ÍBV í handknattleik. Í gær skrifaði leikstjórnandinn Ólafur Víðir Ólafsson undir eins árs samning við félagið og þá bendir allt til þess að markvörðurinn Björgvin Gústavsson fylgi sömu leið, en báðir léku þeir í vetur með HK. Auk þess eru forráðamenn ÍBV í leit að erlendum liðsstyrk að sögn Hlyns Sigmarssonar, formanns handknattleiksdeildar félagsins.Ólafur er mjög öflugur miðjumaður, er 21 árs, og hefur verið viðriðinn íslenska landsliðið síðan Viggó Sigurðsson tók við. Stjórn handknattleiksdeildar HK sagði upp samningi við hann fyrir skömmu og bar við samstarfsörðugleikum. Stjórnin var ekki sátt við að Ólafur ákvað að leika með fótboltaliði félagsins í sumar á sama tíma og hann var samningsbundinn handknattleiksdeildinni. ÍBV hafði samband við Ólaf strax eftir að HK rifti samningi við hann og undirritaði hann samning við Eyjaliðið í gær. Þá er nánast öruggt að Björgvin Gústavsson fari einnig til ÍBV en hann er tvítugur og er einn allra efnilegasti markvörður landsins. Þegar Fréttablaðið hafði samband við Björgvin í gær sagði hann að hugur sinn stefndi til Eyja, hann ætti bara eftir að ganga frá sínum málum varðandi HK þar sem hann væri samningsbundinn.Það er ljóst að ÍBV ætlar ekkert að gefa eftir næsta vetur þrátt fyrir að hafa misst Tite Kalandadze og Roland Val Eradze til Stjörnunnar fyrr í þessum mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×