Innlent

Úr takti við almenna flokksmenn?

Nánast algerlega ný forystusveit tekur nú við stjórnartaumunum í Samfylkingunni eftir úrslit kosninga á landsfundi flokksins í gær. Auk nýs formanns, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og nýs varaformanns, Ágústs Ólafs Ágústssonar, var Ari Skúlason kjörinn gjaldkeri. Þá var Helena Karlsdóttir kosin í embætti ritara og vann þar með sigur á mótframbjóðendum sínum, Stefáni Jóni Hafstein og Valgerði Bjarnadóttur. Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði var kjörinn nýr formaður framkvæmdastjórnar flokksins. Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og dósent við Háskóla Íslands, segir það ekki koma á óvart að Ingibjörg hafi unnið formannsslaginn því í rauninni hefði hún getað orðið formaður flokksins fyrrir tveimur árum. Það sem kom á óvart hafi verið að Össur skyldi etja kappi við hana. Baldur segir að þessi úrslit bendi til þess að forystusveit Samfylkingarinnar og þingmenn hafi verið úr takti við hinn almenna flokksmann. Það hljóti að mega túlka niðurstöðurnar sem kröfu um breyttan stjórnunarstíl og vinnubrögð innan flokksins. Hann segir það líta út fyrir að þónokkur hluti þingmanna og forystusveitar flokksins hafi stutt Össur í formannskjörinu og því hljóti sú spurning að vakna hvort úrslitin hafi ekki verið áfall fyrir þennan forystukjarna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×