Sport

Sögulegur sigur á Svíum í kvöld

Íslenska handboltalandsliðið vann sögulegan sigur á Svíum í kvöld en Ísland vann fyrri vináttulandsleik þjóðanna með fjórum mörkum, 36-32, í Kaplakrika. Þetta var í fyrsta sinn í tæp sautján ár sem íslenska landsliðið vinnur fullskpað landslið Svíþjóðar eða síðan að Ísland vann 24-20 sigur á Spánarmótinu 7. ágúst 1988. Einar Hólmgeirsson og Róbert Gunnarsson skoruðu báðir 9 mörk fyrir íslenska liðið í leiknum. Ísland hafði 19-18 yfir í hálfleik en vann fyrstu 10 mínútur seinni hálfleiks 6-2 og komst mest átta mörkum yfir, 31-23, þegar 13 mínútur voru eftir af leiknum. Viggó Sigurðsson breytti yfir í 6:0 vörn í seinni hálfleik sem gekk mun betur en 5:1-vörnin sem liðið spilaði í fyrri hálfleik. Einar Hólmgeirsson átti frábæran leik í hægri skyttunni en Ólafur Stefánsson sat uppi í stúku og sá kollega sinn skora 9 mörk út 12 skotum þar af sjö þeirra með einstökum langskotum. Róbert Gunnarsson skoraði einnig 9 mörk en saman nýttu hann og Einar 18 af 22 skotum sínum í leiknum. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 5 mörk og Birkir Ívar Guðmundsson varði 13 skot. Jonas Larholm var markahæstur Svía með 9 mörk en sýndi fádæma öryggi á vítalínunni og skoraði úr öllum 8 vítum sínum í leiknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×