Sport

Handboltarisinn að vakna

Handknattleiksdeild FH er stórhuga fyrir næsta tímabil og safnar liði í kvenna- og karlaflokki. Formaðurinn deildarinnar er búinn að fá nóg af meðalmennskunni og segir kominn tíma á að vekja handboltarisann. Kvennalið FH hefur styrkst verulega síðustu vikur með komu örvhentu skyttunnar Ásdísar Sigurðardóttur frá Stjörnunni og hinnar stórefnilegu Örnu Gunnarsdóttur sem kom frá Gróttu/KR. FH er þar að auki með tvær sterkar erlendar stúlkur til reynslu, annars vegar landsliðsmarkvörð Litháa og svo norskan leikmann sem lék undir stjórn þjálfara FH, Kristjáns Halldórssonar, í Noregi en hún getur leikið bæði sem línumaður og skytta. „Við ætlum okkur stóra hluti, bæði í karla- og kvennaflokki. Við erum fjölmörg sem komum að þessu og erum orðin þreytt á meðalmennskunni og getum ekki horft upp á þetta ástand öllu lengur,“ sagði Örn Magnússon, formaður handknattleiksdeildar FH. Mikill metnaður „FH er félag sem er í fremstu röð í fótbolta og frjálsum, en hefur samt hingað til verið þekktast fyrir að vera handboltarisi. Það er kominn tími til þess að vekja þennan handboltarisa. Metnaður okkar er einfaldur: Það er að tefla fram tveimur liðum sem eru samkeppnishæf eða eiga raunhæfan möguleika á titilbaráttu.“ Fyrir utan þessa fínu viðbót hefur landsliðskonan Guðrún Drífa Hólmgeirsdóttir skrifað undir nýjan samning og skyttan Dröfn Sæmundsdóttir mun væntanlega gera nýjan samning við félagið þar sem ekki er útlit fyrir að framhald verði á Spánardvöl hennar. Karlaliðið hefur einnig styrkst mikið síðustu vikur, en FH er búið að gera samning við litháíska skyttu og svo hefur félagið fengið Andra Berg Haraldsson og Daníel Berg Grétarsson. Örn segir að þar verði ekki látið staðar numið heldur ætli félagið sér einn til tvo sterka leikmenn til viðbótar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×