Innlent

Vissu ekki um fréttatilkynningu

Fulltrúi þýska bankans Hauck & Aufhäuser segist fyrst á miðvikudag hafa heyrt af því að opinber umræða um bankann ætti sér stað á Íslandi, þegar Fréttablaðið óskaði eftir símaviðtali við Peter Gatti, fyrrum stjórnarmann í Eglu og framkvæmdastjóra og meðeiganda Hauck & Aufhäuser. Þetta sagði fulltrúi Gatti þegar Fréttablaðið leitaði eftir viðtali við hann eða aðra forsvarsmenn bankans í höfuðstöðvum hans í Frankfurt í Þýskalandi. Þá sagði fulltrúi Gattis að honum væri ekki kunnugt um að nokkur fréttatilkynning hefði verið send út á vegum bankans til Íslands. Kristinn Hallgrímsson, lögmaður Eglu sagði í viðtali við Fréttablaðið á fimmtudag að þýski bankinn hafi ákveðið að senda frá sér yfirlýsingu í kjölfar samtala forsvarsmanna Eglu við forsvarsmenn þýska bankans þar sem þeir síðarnefndu voru upplýstir um þá umræðu sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum hérlendis, þar sem eignarhald þeirra á hlutum í Eglu hefur verið dregið í efa. Í íslensku fréttatilkynningunni sem birtist fjölmiðlum á mánudag segir að hlutabréf þýska bankans Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum og síðar KB banka hafi verið bókuð í ársreikningi bankans meðan þau voru í eigu hans og er hún sögð yfirlýsing Peter Gatti. Í ensku tilkynningunni kemur hinsvegar fram að hlutur þýska bankans í Eglu hafi verið færður í reikningsskil bankans. Engar leiðréttingar hafa verið sendar vegna þessa misræmis í þýðingu framkvæmdarstjóra Eglu, Guðmundar Hjaltasonar. Fréttatilkynningin var send út á bréfsefni bankans, sem starfsmaður Athyglis segist hafa fengið í hendurnar frá forsvarsmönnum Eglu hf. Framkvæmdastjóri Eglu mun hafa þýtt enska þýðingu fréttatilkynningarinnar yfir á íslensku. Guðmundur Hjaltason vildi ekki tjá sig um málið og ekki náðist í Kristin Hallgrímsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×