Viðskipti innlent

Hvað um kindina?

Það er ekki auðvelt að finna núverandi skrifstofur breska bankans Singer & Friedlander, sem KB banki tók yfir í sumar. Inngangurinn stendur við þrönga hliðargötu í London og sjálft húsið er ekki sjáanlegt í fyrstu. Hins vegar er hliðið að húsinu tignarlegt og nokkuð sérstakt fyrir inngang að fjármálafyrirtæki. Ástæðan er sú að forláta sauðkind stendur hnarreist efst á hliðinu og starir eins og hún eigi heiminn. Íslendingum í London er farið að þykja nokkuð vænt um þessa kind enda sú skepna sem var mönnum hvað kærust á Íslandi hér á árum áður. Það sé því viðeigandi að breski bankinn, sem féll sveitamönnunum frá Íslandi í skaut, fagni viðskiptavinum sínum á þennan hátt. Því spyrja þeir í örvæntingu sinni nú þegar starfsemi bankans verður flutt: Hvað verður um kindina? Það er spurning hvort hún fái ekki að flytjast með bankanum og verði plantað fyrir ofan nýjar höfuðstöðvar KB banka í London. Það er við hæfi að blessuð sauðkindin fylgi með í íslensku útrásinni. Tignarlegra verður það ekki.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×